*

Bílar 11. júní 2013

Lætur undan kröfum systur sinnar og selur fornbílinn

Jón Sæmundur er með 50 ára gamlan Benz til sölu. Þetta er glæsilegur bíll sem hefur verið inn í skúr í 20 ár.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Þessi glæsibifreið er eitt af því sem við systir mín fengum í arf eftir foreldra okkar. Hún hefur þrýst á það um árabil að við losuðum okkur við bílinn en ég verið á móti því þar til nú,“ segir hagfræðingurinn og Siglfirðingurinn Jón Sæmundur Sigurjónsson, fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins.

Bíllinn er Mercedes Benz 170V árgerð 1952 og meðal elstu bíla af þessari gerð sem til eru í landinu. Mercedes Benz 170V var fyrst boðinn til sölu í febrúar árið 1936. Hann var framleiddur til ársins 1942 þegar verksmiðjurnar voru þjóðnýttar og bílaframleiðslu hætt. Þá höfðu 75 þúsund bílar verið framleiddir. Þrátt fyrir að verksmiðjurnar hafi nánast verið jafnaðar við jörðu í lok stríðsins árið 1945 voru mótin fyrir bílinn óskemmd og framleiðsla hófst að nýju í maí 1946. Framleiðslan fór hægt af stað, aðeins 214 bílar voru framleiddir það árið.

Faðir Jóns Sæmundar flutti bílinn inn árið 1954. Hann var auglýstur á Bílasölu Guðfinns á dögunum og fjallaði vb.is ítarlega um hann. Ásett verð er 5,3 milljónir króna.

Ekki lengur fjölskyldubíll

Eins og Jón Sæmundur lýsir bilnum þá er honum þokkalega vel við haldið. Mikið hefur verið lagt í hann í gegnum tíðina, en með hléum eins og gengur og nánast allir íhlutir upprunalegir ef frá eru talin stefnuljós á brettunum. Jón Sæmundur segir í samtali við vb.is stefnuljósin hafa upphaflega verið lítil typpi á hurðarpósti á milli fram- og afturhurða bílsins. Þegar bíllinn var gerður upp á bænum Sleitustöðum í  Skagafirði á milli áranna 1982 og 1990 sankaði Jón Sæmundur að sér varahlutum í Þýskalandi. Honum reyndist ómögulegt að fá stefnuljósin. Lítil ljós voru í staðinn sett undir aðalljósin á stuðara bílsins.

Eins og áður kom fram var Jón Sæmundur lengi vel á móti því að selja bíl foreldra sinna, sem eigi sinn sess í minningum hans. „Þegar bíllinn kom frá Sleitustöðum þá var hann ekki lengur fjölskyldubíll heldur fornbíll, meðhöndlaður sem slíkur og hefur verið inni í skúr í 20 ár. Og nú hef ég líka komist að þeirri niðurstöðu að minningarnar eru í kollinum og er tilbúinn til að láta undan kröfum systur minnar,“ segir Jón Sæmundur.

Hér að neðan má sjá nokkrar myndir af bílnum.

 Aðeins stefnuljósin eru ekki orginal í bílnum.

 Bíllinn var framleiddur á árunum 1936-1942 og 1946-1955. Í heimstyrjöldinni síðari stöðvaðist öll framleiðsla einkabíla í Þýskalandi.

Eins og glögglega sést einokar ökumaður bílsins klukkuna. 

Bíllinn er með sex strokka vél sem skilaði 86 hestöflum þegar vélin var ný. 

Tímans tönn hefur rétt aðeins náð að narta í stuðara bílsins, að sögn Jóns Sæmundar. 

Bíllinn er glæsilegur á að líta.