*

Bílar 6. júlí 2013

Léttari og enn kraftmeiri Audi TT

Sportbíll Audi verður enn kraftmeiri auk þess hann verður umhverfismildari og eyðslugrennri.

Audi léttir sportbílinn sinn hinn rómaða TT um 300 kíló með aukinni notkun áls, plasts og kolefnistrefja. Sportbíllinn verður léttari og enn kraftmeiri fyrir vikið. Þessi breyting mun ekki hafa áhrif á öryggisþáttinn að sögn forsvarsmanna Audi en mun gera bílinn umhverfismildari og eyðslugrennri .

Hugmyndin að Audi TT kviknaði fyrri hluta tíunda áratugarins en bíllinn var fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt árið 1995. Hugmyndin að Audi TT er fjögurra manna sportbíl sem byggður er á klassískum sportbílum frá fjórða áratugnum. Fram- og afturrúður eru stórar en hliðargluggar litlar á stórum hurðunum. Þetta klassíska lúkk hefur haldist á Audi TT í tæpa tvo áratugi þótt ýmislegt annað hafi breyst.

Núverandi gerð bílsins er 1400 kíló, með tveggja lítra vél en næsta kynslóð bílsins sem nú er í smíðum verður aðeins 1.100 kíló. Þar munar mestu nýr og léttari undirvagn sem verður að mestu úr áli og kolefnatrefjum auk stáls.

Þetta verður ultra quattro gerð af Audi TT sem mun skila 306 hestöflum og komast úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4,2 sekúndum. Þá ætlar þýski lúxusbílaframleiðandinn að koma fram með nýja ofurútgáfu af bílnum, Audi TT RS, sem verður enn kraftmeiri. Sá sportbíll á að vera með 360 hestafla vél og enn léttari eða aðeins 1.000 kíló.

Stikkorð: Audi TT