*

Bílar 24. febrúar 2015

Lexus bestur en Fiat verstur

Bandaríska tímaritið Consumer Reports birtir lista yfir þá bílaframleiðendur sem standa sig best og verst.

Tímartið Consumer Reports leggur, eins og nafnið gefur til kynna, mat í gæði ýmissa vara — allt frá uppþvottavélum upp í bíla. Árlega gefur tímaritið út lista yfir þá bílaframleiðendur (vörumerki) sem standa sig best í prófunum og þykja áreiðanlegastir.

Bílaframleiðandinn þarf að framleiða að minnsta kosti tvær tegundir undir vörumerkinu til þess að komast á listann. Þess vegna er til dæmis Tesla ekki með, því Tesla framleiðir einungis Model S.

Þessi úttekt er sérstök að því leyti að bíll sem stendur sig vel í prófunum (reynsluakstri) þarf ekki endilega að vera áreiðanlegur og öfugt. Það er heildareinkunnin sem skiptir máli.

Þess má geta að bílaframleiðendur hafa tekið þessum prófunum Consumer Reports misvel. Til að mynda höfðaði Suzuki mál gegn tímaritinu árið 1988 eftir að birt var grein þar sem Suzuki Samurai fékk falleinkunn. Bíllinn þótti óstöðugur og töluverð hætta talin á að hann velti. Eftir átta ára málaferli náðu tímaritið og Suzuki sáttum.

Oftar hafa samt bílaframleiðendur tekið ábendingum tímaritsins vel. Fyrir fimm árum hætti til að mynda Toyota tímabundið framleiðslu á Lexus GX 460 eftir að bíllinn hafði fallið á öryggisprófi hjá tímaritinu. Eftir að hafa gert sínar eigin prófanir lagfærði Toyota gallann og hóf framleiðslu á ný.

Að þessu sinni hlaut Lexus einmitt hæstu einkunn hjá tímaritinu og gerði það reyndar líka síðast. Í öðru sæti varð Mazda en útkoman var verst hjá Fiat, sem lenti í neðsta sæti.

Topp tíu:

 1. Lexus
 2. Mazda
 3. Toyota
 4. Audi
 5. Subaru
 6. Porsche
 7. Buick
 8. Honda
 9. Kia
 10. BMW

Fimm neðstu:

 • Ford
 • Dodge
 • Mini
 • Jeep
 • Fiat

Hægt er að lesa um prófanir Consumer Reports hér.