*

Bílar 13. júlí 2012

Lexus er lúxusbíllinn frá Toyota - með undantekningu þó

Lexus kynnir nýjan og breyttan LS innan skamms.

Japanski bílaframleiðandinn Toyota stofnaði sérstaka lúxusbíladeild árið 1989 til að keppa við þýska og bandaríska lúxusbílaframleiðendur í Bandaríkjunum. Lúxusbíllinn fékk nafnið Lexus.

Lexus var fyrsta árið aðeins í boði á Bandaríkjamarkaði, árið eftir var boðið upp á bíllinn í fleiri löndum og hefur hann náð sterkri stöðu um allan heim.

Mikið er um nýjungar hjá Lexus í ár. Í apríl kynnti Lexus nýjan Lexus ES, sem er lúxusbíll í miðstærð, svipaður að stærð og BMW 5, Mercedes Benz E og Audi A6. ES er aðeins minni en GS en ný kynslóð af honum var kynnt í fyrra.

Seinna í sumar mun Lexus svo kynna nýjan LS, fullvaxinn lúxusbíl líkt og forseti Íslands ekur um á. Bíllinn keppir við S línuna frá Mercedes Benz, BMW 7 og Audi A8. Fleiri bílaframleiðendur hyggjast blanda sér í keppni fullavaxinna lúxusbíla. Má þar nefna Cadillac. 

Century flaggskip Toyota frá 1967 -  og er enn

Toyota hóf framleiðslu á Toyota Century árið 1967. Aðeins tvær kynslóðir hafa verið framleiddar af Century á 45 árum. Þrátt fyrir tilkomu Lexus bílanna framleiðir Toyota undir eigin merki mesta lúxusbílinn í samstæðunni, Century. Bíllinn hefur eingöngu verið seldur á Japansmarkaði og víst er að nafn hans er samofið iðnaðarþjóðarstoltinu þar í landi.

Japanskeisari tók bílinn strax í þjónustu sína og ekur nú um á sérstakri viðhafnarútgáfu sem er sérsmíðuð fyrir hann árið 2006, Century Royal. Eins og sjá má á myndbandinu fyrir neðan er bíll keisarans umkringdur Lexus öryggis- og lögreglubifreiðum.

Aðeins voru 172 Century bifreiðar framleiddar árið 2010 og voru þær aðallega seldar í Japan.

Fyrsta kynslóð Toyota Century. Framleiðsla hófst árið 1967 og stóð yfir í 30 ár.

Núverandi kynslóð Toyota Century hefur verið framleidd frá 1997.

Bíll Japanskeisara, Toyota Century Crown, árgerð 2006. Aðeins voru fjórir bílar framleiddir af Royal gerðinni.

Stikkorð: Toyota  • Lexus