*

Hitt og þetta 1. desember 2013

Leyfðu trénu að endurspegla sálina

Gerum jólatréð í ár dáldið persónulegt. Leyfum því að endurspegla okkur sjálf svona einu sinni.

Lára Björg Björnsdóttir

Hættum að fela okkur á bak við ópersónulegar jólakúlur og seríur þegar við skreytum jólatréð í ár. Skreytum þetta með því sem skiptir okkur máli. Skrauti sem sýnir inn í sálina. Skrauti sem ekkert felur.

Grænmetisætan: Fyrir grænmetisætuna liggur beinast við að taka paprikur (eigum við ræða litadýrðina?), gular, rauðar og grænar, dýfa þeim í glimmer og hengja á tréð. Það sama má gera við gulrætur og þá væri skemmtilegt að dýfa endunum á gulrótunum ofan í hvíta málningu (snjór) til að fá alvöru vetrarfíling. Jólastjarnan á toppnum er síðan andlitsmynd af Sollu í Grænum kosti. Eðlilega.

Kjötætan: Í stað þess að kasta englahári yfir tréð má kasta strimlum af parmaskinku. Ekki láta ykkur dreyma um beikon, það er allt of groddalegt og heldur hversdagslegt líka. Mottan undir trénu gæti verið búin til úr samansaumuðum kótelettum og toppurinn er feitt bjúga. Til að festa bjúgað má stanga það á hol með efstu greininni. Mjög listrænt og dáldið öðruvísi.

Flughrædda fólkið: Lykilorðið hér er lesefni. Tilvalið er að hengja ferðabænir á tréð, útprentaðar á segjum gylltan, hvítan og rauðan pappír sem klipptur er út í englamynstur til að minna á hversu hverfult lífið er. Einnig má prenta út æðruleysisbænina. Svo má ekki gleyma öllum fallegu jarðarfarasálmunum eins og Hærra minn Guð til mín og Heyr himna smiður sem sá flughræddi raular fyrir munni sér í flugtaki, þegar sætisljósin ljóma í ókyrrð, í lendingu og bara alltaf þegar hann lítur til himins og sér flugvél.

Jógapinninn: Þetta verður tjill jólatréð í ár. Jógamottan er að sjálfsögðu í hlutverki jólatrésmottunnar. Síðan má hengja fallega hlýraboli í glaðlegum litum á tréð ásamt vönduðum leggings. Vatnsflöskur með engifer- og sítrónuvatnsblöndum má bæði nota til skrauts og til að vökva kvikindið sem mun þar af leiðandi standa til páska. Toppurinn er að sjálfsögðu brjóstmynd af Gandhi sem stendur ofan á stóru útskornu þriðja auga úr glimmerpappír.

Karlremban: Jólatré karlrembunnar er að sjálfsögðu karlskynstegundin normannsþinur en ekki fura. Á tréð er tilvalið að hengja upp úrslit prófkjöra síðustu ára hjá allskonar stjórnmálaflokkum. Einnig má klippa út fallegar myndir af straujárni, eldavélum og þvottavélum og skrifa með glimmeri á myndirnar „Konan, hehe”. Á toppinn fer andlitsmynd af Fred Flinstone.