*

Veiði 23. júní 2019

Leynivopnið í veiðina

Ólafur Vigfússon velur heitustu flugurnar í lax- og silungsveiðina í sumar.

Trausti Hafliðason

Ólafur Vigfússon er þaulreyndur veiðimaður og mörgum veiðimönnum kunnur því í rúmlega 20 ár hefur hann rekið veiðiverslanir ásamt eiginkonu sinni, Maríu Önnu Clausen. Þau hjón reka í dag Veiðihornið í Síðumúla og Veiðimanninn við Krókháls.

Oftar en ekki standa þau hjón vaktina í Veiðihorninu og leiðbeina veiðimönnum. Viðskiptablaðið ákvað að heyra í Ólafi og fá ráðleggingar um spennandi flugur fyrir sumarið enda fær hann, starfs síns vegna, beint í æð upplýsingar um hvaða flugur eru heitar hverju sinni. Það kennir ýmissa grasa í vali Ólafs. Hefðbundnar flugur eins og Sunray Shadow og Frances eru á listanum en einnig nýstárlegar og minna þekktar flugur eins og Twitter Glitter og Leifur, sem er tiltölulega ný fluga eftir Einar Pál Garðarsson, sem er betur þekktur sem Palli í Veiðihúsinu. Palli hefur hnýtt margar fengsælar flugur og má sem dæmi nefna Sjáandann, Tvíburann og Brá.

Brá er einmitt sú fluga sem Ólafur telur að gæti reynst hvað best í þeim aðstæðum sem nú eru víða um land. Hann segir að Brá sé „heitasta flugan í björtu veðri og litlu vatni“ og því gæti hún verið öflugasta leynivopnið í boxum veiðimanna þetta sumarið. Til gamans má geta þess að Palli í Veiðihúsinu hefur í viðtölum sagst veiða 99,9% með hröðu strippi. Veiðimenn ættu kannski að hafa þetta í huga þegar þeir setja eina af hans flugum undir.  

Brá

Heitasta flugan í björtu veðri og litlu vatni. Þessi fluga er án efa sú besta um þessar mundir, eins og veðrið og vatnið leikur við okkur nú. Reynsla síðustu ára staðfestir að í björtu veðri, þegar vatn er lítið, skilar Brá bestu veiðinni. Í viðtali í Veiðimanninum, tímariti Stangaveiðifélags Reykjavíkur, lýsti Einar Páll þessari mögnuðu flugu. „Ef við tökum flugu eins og Brá, sem er hnýtt á silfurkrók, þá er skottið hvítt og einnig er hvítur vængur. Hálsfjöðrin (e. hackle), sem er reyndar lítill yfirvængur, er svört, sem og skeggið og hausinn á flugunni. Ef það er sól og þú berð fluguna við himin þá sérðu bara það svarta. Ég held að laxinn sjái þetta eins þegar flugan skautar yfir hann. Ég held að hann sjá ekki hvítu litina, silfurkrókinn og gulllegginn. Þegar ég hef verið að hnýta flugur þá hef ég fyrst og fremst reynt að ímynda mér hvernig fiskurinn sér þær en ekki hvernig við mannfólkið sjáum þær í vatninu.“

Á lista Ólafs eru ellefu laxaflugur til viðbótar og fimm silungaflugur. Umfjöllun og myndir af öllum flugum eru í sérblaðinu Veiði, sem fylgdi Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Veiði  • stangaveiði  • laxveiði  • silungaflugur  • laxaflugur