*

Sport & peningar 12. apríl 2020

Lið í neðri deildum í hættu

Mörg lið í neðri deildum evrópsku knattspyrnunnar horfa fram á umtalsvert tekjutap verði keppni blásin af vegna Covid-19.

Jóhann Óli Eiðsson

Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að Covid-19 faraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á stærstu knattspyrnulið í heimi. Áhrifin eru hins vegar ekki síður minni á smærri lið heimsins.

Í kjölfar samkomubanns hefur keppni í stærstu deildum heimsins verið stöðvuð og óljóst hvenær eða hvort henni verður fram haldið. Viðbúið er að ef af því verður muni það vera gert fyrir luktum dyrum. Til að bregðast við samdrætti í tekjum hafa flestir leikmenn og starfsmenn tekið á sig launalækkun. 

Verði það niðurstaðan að keppni verði stöðvuð alfarið er óljóst hvað skal gera til að krýna meistara, hvað verður um sæti í Evrópukeppnum og hvaða lið falla eða komast upp um deild. Það er helst það sem gæti haft áhrif í neðri deildunum. Miklir fjármunir, gegnum auglýsinga- og sjónvarpsrétti, eru í húfi fyrir þau lið sem ná að vinna sig upp. 

Á Ítalíu er Frosinone í þriðja sæti í Serie B, næstefstu deild, og á engan möguleika á því að ná efstu tveimur sætunum. Þriðja sætið gefur hins vegar sæti í umspili um laust sæti í Serie A. Verði tímabilið blásið af og umspilinu þar með hætt hefur Maurizio Stirpe, forseti Frosinone, hótað málsókn til að tryggja að liðið hans komist í efstu deild.

Á Spáni er Real Zaragoza í góðri stöðu til að tryggja sér sæti á ný í La Liga en liðið féll niður um deild árið 2013. Forseti félagsins, Christian Lapetra, segir við AFP að félagið muni, líkt og Frosinone, höfða dómsmál fari það svo að deildin verði blásin af. 

Á Englandi búast menn við því að nokkur fjöldi liða gæti rúllað í þrot. Áætlað er að liðin í þriðju og fjórðu deild, League One og League Two, muni verða af um 50 milljón pundum vegna þessarar tafar. 

„Hjá okkur mæta um 3 þúsund manns á leiki svo við erum að tapa um 45 til 50 þúsund pundum á tapaðri miðasölu. Við höfum fengið fjármuni fyrir fram frá deildinni en þá hefðum við vanalega fengið í ágúst. Það ætti að duga okkur fram í júlí en eftir það vitum við ekkert hvað skal gera,“ segir Phil Wallace stjórnarformaður Stevenage en liðið hvílir á botni League Two. 

Hugmyndir um að ljúka tímabilinu fyrir luktum dyrum hljóma síðan ekki spennandi fyrir liðin enda þýðir það að tekjur af sölu á varningi og stuðningsaðilum munu ekki skila sér í kassann.