*

Bílar 3. nóvember 2014

Lífgar upp á tilveruna

Netti borgarbíllinn Opel Adam er nefndur í höfuðið á stofnanda þýska bílaframleiðandans.

Róbert Róbertsson

Bíllinn er hinn laglegasti í útliti og hönnuðum Opel hefur tekist vel til þarna. Þetta er að mínu mati einn flottasti smábíllinn á markaðnum. Innanrýmið er sportlegt og nútímalegt. Það er eitthvað sérlega töff við þennan þriggja dyra bíl og eftir honum er tekið. Hann minnir mig svolítið á Fiat 500 og ekki leiðum að líkjast að mínu áliti. Hægt er að velja um gríðarlegan fjölda litasamsetninga í Opel Adam, bæði að utan sem og í innanrýminu og hægt að sníða hann þannig eftir eigin höfði.

Sérfræðingar í hönnunarteymi Opel í Russelsheim töldu að í raun væru möguleikarnir í litasamsetningu líklega um milljón talsins. Þetta er snjallt markaðslega séð hjá Opel og mun klárlega vekja lukku hjá kaupendum. Litadýrðin lífgar klárlega upp á tilveruna og gefur bílnum sitt einstaka útlit. Samkeppnin er hörð í þessum stærðarflokki bíla og mikið framboð og því snjallt hjá Opel að reyna að skera sig svolítið úr.

Sprækur í akstri

Opel Adam er nokkuð sprækur bíll og þótt vélarstærðin á reynsluakstursbílnum hafi ekki verið nema 1,2 lítrar þá skilar hún þokkalegu afli fyrir ekki stærri bíl. Bíllinn var reyndar beinskiptur og þannig hægt að nýta vélaraflið og hestöflin til hins ítrasta. Aksturseiginleikarnir eru með ágætum. Stýringin er nokkuð góð, fjöðrunin stíf sem gerir aksturinn svolítið sportlegan að mínu mati. Mér fannst bíllinn standa sig ágætlega þegar ég gaf talsvert í á hraðbrautinni. Þéttleikinn var meiri en ég átti von á þegar komið var talsvert yfir hundraðið. Í borgarakstri er hann lipur í akstri í alla staði og auðvelt að smeygja honum í stæði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Opel Adamn  • Opel Adam