*

Ferðalög 29. janúar 2014

Lífshættulegir ferðamannastaðir

Mannýg naut, raðmorðingjar á sléttum Ástralíu og þyrluflug yfir eldfjöll. Skoðum ferðamannastaði fyrir þá sem þora.

Á meðan margir ferðamenn vilja bara slaka á með kokteil í sólbaði þá eru aðrir sem vilja spennu, fjör og áhættu.

Þetta eru ferðamennirnir sem láta aðvaranir sem vind um eyru þjóta og virðast bara tvíeflast ef þeir heyra af því að fólk hafi látið lífið á einhverjum ferðamannastaðnum.

Og hvar er þessa áhættusæknu ferðamenn helst að finna? Jú, til dæmis á þessum tíu ferðamannastöðum sem vefsíðan Stuff.co.nz telur með þeim hættulegri í heimi. Skoðum þá:

Death Road: Bólivía. Vegurinn heitir dauðastígurinn og ber nafn með rentu enda hafa fjölmargir látið lífið við hjólreiðar á þessum fjallastíg sem liggur utan í fjallshlíð rétt fyrir utan La Paz. Um 25 þúsund manns reyna við stíginn á hverju ári. Bæði ferðamenn og heimamenn. Og margir deyja.

Mount Everest: Líkurnar á því að koma ekki til baka eru einn á móti tíu.

San Fermin hátíðin í Pamplona: Spánn. Tryllt naut lokuð inni á litlu svæði, mannþröng og síðan byrja allir að hlaupa. Fimmtán manns hafa látið lífið í gegnum tíðina á hátíðinni en það stöðvar ekki ferðmannastrauminn á hverju ári.

Kokoda Trail PNG: Ástralía. Gangan þykir hættuleg og hafa sex ferðamenn dáið á svæðinu á síðustu árum.

Skíði: Hvar sem er. Nýleg skíðaslys sýna okkur að slys á skíðum geta komið fyrir reyndasta fólk, hvar og hvenær sem er.

Miklagljúfur: Bandaríkin. Allt mögulegt getur komið fyrir ferðamenn sem fara um Miklagljúfur. Yfir sex hundruð manns hafa látið lífið þar í gegnum tíðina. Fólk hefur dottið eða fengið hjartaáfall á göngu. Það hefur lent í flóðum eða þyrlu- og flugslysum og jafnvel orðið fyrir eldingu.

Second Beach, Port St. Johns: Suður-Afríka. Second Beach ströndin er talin ein besta strönd í heimi fyrir brimbretti en hún er einnig troðfull af hákörlum. Á síðustu 25 árum hafa 23 manns dáið í hákarlaárásum.

Full Moon Party: Tæland. Flestir sem sækja hátíðahöldin í Koh Phangan til að fagna fullu tungli koma heim í heilu lagi heim. En einhverjir lenda í því að taka eitthvað sem þeir hefðu ekki átt að taka eða vakna á stað sem þeir hefðu betur sleppt því að vakna á.

The Australian Outback: Ástralía. Ef það eru ekki snákarnir sem munu bíta þig þá eru það krókódílarnir. Eða hvort tveggja. Nú eða hitinn. Eða könguló. Eða raðmorðingi. Farðu varlega.

Kauai eldfjallatúrar: Havaí. Það er stórfenglegt útsýnið úr þyrlu yfir eldfjöllin á Havaí. Fólk þarf samt að hafa í huga að síðan 1995 hafa yfir 30 manns farist í þyrluslysum á þessum slóðum. Farðu frekar gangandi.

Stikkorð: Hættulegt  • Örvænting  • Mjög hættulegt