*

Menning & listir 19. júlí 2019

Líkir æðardún við kókaínframleiðslu

Guardian skrifar langa grein um sambýli manns og æðarfugla á Íslandi og framtíðarhorfur í æðardúnstýnslu.

Í nýrri grein á vefsíðu breska blaðsins Guardian lýsir vestfirskur prestur æðardún við kókaín að því leitinu til hve lítið af miklu lokaverðmæti vörunnar skili sér til bóndans sjálfs. „Ég held stundum að við erum eins og kókaínbændurnir í Kólumbíu,“ segir presturinn í Önundarfirði sem þó er ekki nafngreindur í greininni sem ber titilinn: Undarlegir töfrar æðardúnsins.

„Við fáum einungis brot af verðinu sem fæst fyrir lokaafurðina sem seld er á strætum Tokyo. Þetta er besti dúnn í heimi og við flytjum hann út í svörtum ruslapokum.“

Í greininni er sérstökum eiginleikum æðardúnsins til að halda á fólki hita rædd sem og hið sérstaka samband og sambýli bændanna sem halda utan um æðarvörpin og æðarfuglanna sjálfa sem verpa í trausti þess að bændurnir bægi frá rándýrum.

Jafnframt er rætt um aðdáun skoska rithöfundarins Gavin Maxwell á íslensku æðardúnsframleiðslunni, og svo er talað við Valdimar Gíslason refaskyttu í Dýrafirði.

Loks heimsækir höfundurinn Æðey í Ísafjarðardjúpi, þar sem er stærsta æðarvarp heims, og veltir fyrir sér framtíð þessa landbúnaðar sem treystir á fólk, sem aldrei myndi sjálft klæðast þeim rándýru úlpum sem framleiddar eru úr dúninum, til að vinna baki brotnu í sudda á hjara veraldar.