*

Tíska og hönnun 29. mars 2021

Lindex opnar verslun á Selfossi

Ný verslun Lindex á Selfossi veðrur opnuð þann 7. águst næstkomandi og verður sú stærsta sem utan höfuðborgarsvæðisins.

Ákveðið hefur verið að Lindex opni á Selfossi í rými sem hýsir í dag sérverslun Hagkaupa. Verslunin mun opna samtímis hátíðinni Sumar á Selfossi eða 7. águst næstkomandi og verður sú stærsta sem Lindex hefur opnað utan höfuðborgarsvæðisins.

Lindex rekur nú 8 verslanir á Íslandi: í Smáralind, tvær verslanir í Kringlunni, Glerártorgi á Akureyri, Akranesi, Suðurnesjum, Egilsstöðum ásamt netverslun lindex.is.

„Við höfum leitað lausna í nokkur ár til að fylgja eftir opnunum á Akranesi, Suðurnesjum og síðast á Egilsstöðum með verslun í okkar heimabæ, á Selfossi-þar sem þetta allt saman byrjaði. Áhuginn hefur ekki látið á sér standa en það er mikið gleðiefni að samningar skuli hafa náðst við Haga um verslunarrýmið við hlið Bónus,“ er haft eftir Lóu D. Kristjánsdóttir, umboðsaðila Lindex á Íslandi, í fréttatilkynningu. 

„Við mátum það svo að við vildum hafa verslunina á Selfossi stærri en áður hafði verið kynnt og bjóða uppá allar vörulínur Lindex. Nýja verslunin verður því stærsta Lindex verslun okkar utan höfuðborgarsvæðisins, tæpir 700 fermetrar og stóð því öðrum valkostum framar. 

Til viðbótar er það einnig sérlega ánægjulegt að 10 ár eru liðin frá því að við opnuðum okkar fyrstu verslun og nú áratug seinna erum við að opna okkar stærstu verslun utan höfuðborgarsvæðisins og á þeim stað þar sem þetta allt hófst, í mínum heimabæ, Selfoss. Eftir langa bið erum við því full tilhlökkunar að fagna sumrinu og opna á Sumar á Selfossi þann 7. ágúst“, segir Lóa.

Ný og björt hönnun og öll vörulínan býðst á Selfossi

Þess ber að geta að nýja verslunin á Selfossi verður byggð upp með nýrri innréttingahönnun Lindex sem leit fyrst dagsins ljós við opnun verslunarinnar í London. Hönnunin byggir á björtum litum með ólíkum litbrigðum hvítra lita í bland við svart og viðar sem gefur útliti verslunarinnar skandínavískt yfirbragð. Verslunin mun því veita viðskiptavinum innblástur og einstaklega hlýlegar móttökur og eins og áður segir, sú stærsta utan höfuðborgarsvæðisins og því boðið upp á heildarvörulínu Lindex.

Í nýju versluninni verður í boði öll vörulína Lindex; dömu- og undirfatnað og barnafatnað ásamt snyrtivörum og fylgihlutum.

Stikkorð: Lindex