*

Bílar 4. janúar 2020

Lipur og þægilegur

Nýr Peugeot Partner kom fram á sjónarsviðið á þessu ári og hefur fengið mjög góðar viðtökur.

Róbert Róbertsson

Nýr Peugeot Partner kom fram á sjónarsviðið á þessu ári og hefur fengið mjög góðar viðtökur. Það er ekkert skrítið því hér er á ferðinni lipur og góður sendibíll sem er hannaður til vinnu og uppfyllir kröfur nútímans. 

Þetta er þriðja kynslóð Peugeot Partner og vel heppnuð í flesta staði. Hönnun bílsins er lagleg. Framendi hans sker sig strax úr og grillið með ljóninu fyrir miðju er einkenni Peugeot. Framljós bílsins gefa honum nútímalegt útlit. Heildarsvipurinn er laglegur hvort sem er að innan eða utan. Peugeot hefur komið fram með fallega bíla að undanförnu í fólksbílalínu sinni og má þar nefna 3008 og 5008 jepplingana sem og nýjan 508 fólksbíl. Partner fær að njóta góðs af þeim góða árangri sem náðst hefur hjá Peugeot í hönnunarvinnunni.

Mjög góður í umgengni

Peugeot i-Cockpit® er eitt af aðalsmerkjum bíla frá franska bílaframleiðandanum og kemur sem staðalbúnaður í Partner. Ökumannsrýmið i-Cockpit er ný nálgun og hugsun sem kemur í nýjustu fólksbílum Peugeot og Partner fær að njóta góðs af því. Lítið og nett stýri, mælar og skjáir sem eru frekar hátt staðsettir til að þeir séu í sem bestri sjónlínu fyrir ökumann. Slíkt eykur á öryggi og þægindi auk þess em það minnkar þreytu í akstri. Þægindin eru allsráðandi í nýjum Partner og sérstaklega hefur verið hugað að hljóðeinangrun og góðri vinnuaðstöðu fyrir ökumann. Aðgengi að hleðslurými og vinnuaðstaða í ökumannsrýminu er með besta móti.

Það er mjög þægilegt að umgangast sendibílinn. Auðvelt er að hlaða hann og í útfærslunni sem ég fékk í reynsluakstrinum voru rennihurðir á báðum hliðum auk afturhurða. Það var sérlega þægilegt að geta hlaðið inn dóti beggja megin. Rennihurð er staðalbúnaður á hægri hlið bílsins en í boði er að fá bílinn með rennihurðum beggja megin. Hurðirnar eru búnar lokunarvörn. Tvær hurðir eru að aftan ( með 90 eða 180 gráðu opnun). Fellanlegt skilrúm er til staðar til að flytja lengri hluti. Þetta er allt mjög þægilegt og vel að verki staðið hjá framleiðandanum.

Nýr undirvagn og fínn akstur

Nýr Peugeot Partner er byggður á nýjum undirvagni sem ættaður er úr Peugeot 3008 fólksbílnum og heillað hefur marga fyrir framúrskarandi aksturseiginleika og styrk. Vélarnar í nýjum Peugeot Partner eru nýjar og frekar eyðslugrannar og hafa lágt CO2 gildi. Ný 8 þrepa sjálfskiptingin er fáanleg með 130 hestafla vélinni.  

Aksturseiginleikar Partner eru prýðilegir. Bíllinn er lipur og þægilegur í akstri. 1,5 lítra dísilvélin með sín 130 hestöfl er nokkuð spræk og jafnvel með fullt af dóti aftur í. Togið er 300 Nm. Sendibíllinn nær úr kyrrstöðu í hundraðið á 11,8 sekúndum og hámarkshraði bílsins er 185 km/klst. Þetta er svo sem ekki bíll fyrir hraðakstur þannig að þessar tölur eru ágætar.

Partner er einnig í boði með beinskiptingu og 100 hestafla vél. Aksturinn verður auðveldari þökk sé nýjustu tækni og tengimöguleikum eins og Mirror Link tækninni sem gefur möguleika á að spegla snjallsímanum á skjáinn. Eyðslan er frá 4,1 lítra á hundraðið miðað við tölur frá framleiðanda sem verður að teljast vel sloppið fyrir sendibíl en auðvitað er eyðslan alltaf aðeins meiri þegar á hólminn er komið. Það fer þó oft eftir aksturslagi og auðvitað hvort bíllinn er fullhlaðinn eða ekki. CO2 losunin er 111 g/km.

Hliðar- og bakkmyndavél eykur öryggið

Nýr Partner er með fyrstu sendibílum sem bjóða upp á Surround Back Vision eða hliðar- og bakkmyndavél. Þetta er býsna gott kerfi öryggisins vegna.

Það gerir ökumanni kleift að fylgjast betur með umhverfinu til hliðar og á bak við bílinn jafnvel þó að bíllinn sé með gluggalausu hleðslurými. Umhverfið næst bílnum sem oft er í blindu svæði er varpað á skjá með hjálp tveggja myndavéla. Önnur er í farþegaspegli og hin aftan á bílnum. Hliðarmyndavélin gefur sýn á farþegahliðina og betri sýn á blindapunktinn.

Bakkmyndavélin sýnir svæðið næst bakhluta bílsins og sýnir fjarlægðir með línum 1 m og 2 m ásamt því hvernig aksturstefna bílsins er með tilliti til stöðu stýrisins. Einnig sýnir hún opnunarradíus á afturhurðum til að ökumaður geti áttað sig á hve langt aftur má bakka.

Ofhleðslunemi í boði

Nýr Partner er í boði með ofhleðslunema sem er sá fyrsti sinnar tegundar í þessum flokki sendibíla. Ökumaðurinn fær þannig upplýsingar um hvort of mikil hleðsluþyngd er í bílnum. Hleðsluneminn virkar bæði á aftur- og framöxul og lætur vita ef hámarki er náð. Þetta er til að koma í veg fyrir ofhleðslu sem getur haft áhrif á aksturseiginleika, bremsugetu, aukna hættu á að dekk þoli ekki álagið sem og aukið álag á bílinn sjálfan. Afturhurðirnar á Partner hafa verið endurhannaðar til að auka enn á opnunarrýmið. Lamirnar á hurðunum eru faldar og þannig staðsettar að minna álag verður á þeim sem leiðir til enn betri styrks og endingar.

Peugeot Partner sendibíll kemur nú með 5 ára ábyrgð og segir margt um hversu Peugeot metur gæði sendibíla sinna. Peugeot Partner hefur í 20 ár verið einn mest seldi sendibíll Evrópu. Bíllinn hefur verið einn mikilvægasti bíll franska bílaframleiðandans og lykilbíll fyrir hann í atvinnubílaflokknum.

Peugeot Partner vann til hinna eftirsóttu verðlauna International Van of the Year 2019.

Tvær lengdir og mismikið hleðslurými

Tvær lengdir eru í boði L1 og L2. Hleðslulengdin er 817 mm í L1 og rúmmál hleðslurýmis 3,3 rúmmetrar. Með MultiFlexinnréttingunni er heildarlengd hleðslurými 3 009 mm rúmmál hleðslurýmis 3,80 m3.

Í L2 er hleðslulengdin 2.167 mm og rúmmál hleðslurýmis er 3,9 rúmmetrar. Með MultiFlexinnréttingunni  er heildarlengd hleðslurýmis 3 440 mm og rúmmál hleðslurýmis 4,40 m3. Burðargetan er frá 688 kg uppí 709 kg. LED lýsing er í hleðslurýminu ásamt 10 festipunktum fyrir farangurinn sem eykur á þægindin. 

Tvær búnaðarútfærslur eru boðnar annars vegar Classic og hins vegar ríkulega útbúinn Professional útgáfa. Peugeot Partner Van er á sérstöku kynningartilboðsverði um þessar mundir og kostar frá 2.290.000 kr. samkvæmt upplýsingum frá Brimborg, sem er umboðsaðili Peugeot á Íslandi Þar er um að ræða beinskiptan Classic bíl með 100 hestafla vélinni. Í dýrustu Professional útfærslunni kostar Partner rétt rúmar 4 milljónir króna.

Stikkorð: Peugeot  • Partner