*

Menning & listir 8. júlí 2017

List frekar en punt

Ferill Guðmundar Birkis Pálmasonar kíró- praktors og málara hefur verið á hraðri uppleið en hann hafði loksins hugrekki til þess að reyna við penslana árið 2007 eftir að hafa látið sig dreyma um það í mörg ár. Eftir vinnu leit við á vinnustofuna.

Kolbrún P. Helgadóttir

Hvernig lítur venjulegur vinnudagur út hjá þér?
Ég starfa hjá Kírópraktorstofu Íslands í Kópavogi en þar meðhöndla ég skjólstæðinga mína frá átta til fimm á daginn. Ég mæti alltaf á æfingu fyrir vinnu svo að ég hafi góða orku yfir daginn. Ég er oftast frekar skipulagður og er alltaf með hugann við listina, svo þegar sá litli tími sem ég hef til að mála gefst er ég mjög fljótur að koma mér að verki og vinn oftast mjög hratt. Ég mála alltaf á kvöldin þegar allt er komið í ró á heimilinu.

Hvenær fórstu fyrst að prófa þig áfram með penslana?
Ég fór að prófa mig áfram árið 2008 meðan ég var í kírópraktornámi í Stokkhólmi. Mig hafði alltaf langað, en aldrei þorað. Einn daginn ákvað ég bara að láta á þetta reyna þar sem okkur vantaði eitthvað á veggina og „the rest is history“ eins og þeir segja. Einu ári og þrjátíu málverkum seinna hélt ég svo mína fyrstu sýningu í Stokkhólmi.

Sóttirðu síðar eitthvert nám?
Fyrstu sex árin var ég einfaldlega bara sjálflærður í listinni á meðan ég bjó erlendis, svo var það ekki fyrr en ég hitti Bjarna Sigurbjörnsson sem ég fór að læra handtökin betur og meðhöndlun á hinum ýmsu efnum sem ég hafði ekki áður. Ég held að það sé hægt að læra flest í lífinu með smá áhuga en að mála abstrakt málverk er eitthvað sem kemur innra með og hellist úr manni. Áttu þér fyrirmynd í listinni? Það eru þá helst Julian Schnabel, Rauschenberg, Pollock og síðast en ekki síst Bjarni Sigurbjörnsson.

Að hverju ertu að vinna um þessar mundir?
Ég hef verið mjög upptekinn síðustu tvö ár með Grey Series-málverkaseríuna mína sem ég hef verið að sýna hérna á Íslandi og í Stokkhólmi. Ég er ennþá að vinna fullum höndum í pöntunum tengdum þeirri seríu en ætla fljótlega að fara að þróa næsta verkefni sem er ákveðið áframhald af þeirri seríu. Grey series snerist svolítið um að fara frá sterku litunum sem hafa einkennt myndirnar mínar en að halda engu að síður sama grófleika og krafti.

Hvar hefur þú helst verið að sýna verkin þín?
Ég hef langmest verið að sýna í Stokkhólmi þar sem markaður fyrir málverkin mín hefur verið mjög góð- ur. Þar hef ég sýnt í Gallerí MOOD, Galleri Norrsken ásamt öðrum minni galleríum. Hérna á Íslandi hef ég sýnt í listasal Anarkíu og Kaffihúsi Prepp. Er ný sýning fram undan? Það er ekki bókuð sýning eins og er, en það er stefnt á haustið/veturinn 2017. Ég byrja líklegast á sýningu hér á landi og svo stefni ég á aðra í London í vetur.

Hvað veitir þér innblástur? 
Það getur verið svo ótrúlega margt. Ég er alltaf að hugsa um málverk og verð fyrir áhrifum allan daginn. Það er svo margt sem hreyfir við mér eins og djörf og óhefluð abstrakt listaverk, þessi mikilfengna íslenska náttúra sem við búum við, klassísk tónlist, börnin mín, konan mín og svo margt fleira.

Hvar málarðu myndirnar þínar?
Ég mála alltaf í bílskúrnum heima, það er svo þægilegt að getað labbað beint inn í vinnustofuna og ekki þurfa að fara að heiman, þar sem það er alltaf í nógu að snúast með þrjú börn á heimilinu. Stundum mála ég úti og leyfi málverkunum að finna fyrir íslenska veðrinu. Það býr alltaf til ákveðinn karakter í málverkin.

Er hver og ein mynd skipulögð eða verða þær til á staðnum?
Ég hef alltaf eða oftast einhverja hugmynd um hvað ég ætla að gera en það breytist oft fljótt og eitthvað verður til bara í augnablikinu. Bestu myndirnar eru alltaf þær sem maður þarf að kljást við og hafa svolítið fyrir, eins og svo margt annað í lífinu. En það er svolítið svipað með lífið og að mála abstrakt málverk að það er mikilvægt að vera ekki hræddur um að mistakast. Um leið og það gerist verður aldrei neitt úr málverkinu.

Hvernig upplifun er að vera listamaður á Íslandi?
Það getur örugglega verið mjög erfitt, ég finn það alveg að ég gæti ekki lifað á listinni einni saman. Þegar ég bjó úti var þetta auðveldara þar sem markaðurinn er stærri og Svíarnir kaupglaðari. Ég held að margir sem lifi á því að vera listamenn hér á landi séu í töluverðu ströggli. Ég sel sjálfur mest erlendis og finnst það vera mun greiðari og öflugri markaður heldur en hérna heima. Úti er sem dæmi miklu meira um hinar ýmsu uppá- komur fyrir listamenn til þess að koma sér á framfæri eins og „affordable art fair“ og fleiri uppákomur þar sem mörg þúsund manns koma og skoða hvað ungir og upprunalegir listamenn eru að gera og geta keypt af á mjög hagstæðum kjörum beint frá listamanni.

Eru Íslendingar duglegir að kaupa íslenska hönnun?
Kannski mættu Íslendingar vera duglegri að kaupa sér list frekar en punt. Hvar má nálgast hönnun þína hér á landi? Ég er með heimasíðu www.norrart.com þar sem má nálgast allar upplýsingar, einnig er ég mjög virkur á samfelagsmiðlum eins og instagram;gummikiro og facebook.com/norrart. Er hægt að sérpanta myndir? Já, það er mjög vinsælt þar sem viðkomandi getur valið stærð og haft áhrif á litasamsetningu og stíl verksins. Verk eftir hvaða hönnuð eða listamann dreymir þig um að eignast? Mig hafði dreymt lengi um að eiga verk eftir Bjarna Sigurbjörnsson. Ég lét loksins verða af því og keypti af honum málverk í fyrra. Næsta, kannski heldur háleita markmið er að eignast eitt eftir Schnabel.