*

Menning & listir 30. janúar 2014

Listamaðurinn á bíl sem startar ekki í frosti

Ragnar Kjartansson hefur selt listaverk fyrir milljónir króna. Hann segist oft hafa sett pening í verk sem ekki hafi selst.

„Það er náttúrulega smá bömmer þegar það kemur í fréttunum. að maður sé ógeðslega ríkur þegar maður á ekki einu sinni bíl sem startar í frosti,“ segir listamaðurinn Ragnar Kjartansson. Hann fer yfir ferilinn í viðtali í Kjarnanum  í dag og ræðir um vídeólistaverkið The Visitors. Eitt sex eintaka verksins er til sýnis í Gallerí Kling & Bang við Hverfisgötu.

Undir lok síðasta árs sagði frá því í Viðskiptablaðinu að Ragnar hafi selt öll sex eintökin og fór hvert þeirra á 120 þúsund dali, jafnvirði rúmra 14 milljóna króna. Samkvæmt því er söluandvirði verkanna allra 84 milljónir króna. Þá sagði á VB.is Lilja Gunnarsdóttir, aðstoðarmaður Ragnars Kjartanssonar, sagði jafnframt í samtali við  VB, mikinn framleiðslukostnað liggja á bak við verkin. Borga þurfi fólki sem tekur þátt; tónlistarmönnum, töku- og tæknimönnum, höfundarréttargjöld og ferðakostnað svo fátt eitt sé nefnt. Afraksturinn af sölunni notar Ragnar jafnframt til að fjármagna þau verkefni sem hann er þegar með á prjónunum og kosta jafnframt sitt.

Ragnar fjallar um sölu listaverkanna í Kjarnanum og milljónirnar.

„ Hið góða er að það kemur í ljós að þessi verk búa til svona mikla veltu. Þetta er eins og kvikmyndamenn sem velta háum upphæðum en sjálfir eru þeir sjaldnast mjög ríkir. En þetta eru sem sagt ágæt rök í umræðunni um hið hagræna gildi listarinnar.“ 

 Þá er Ragnar spurður að því hvað galleríið ber úr býtum og velt því upp hvort þau taki ekki um helming. 

„Jú, í mínu tilfelli eru galleríin reyndar tvö en fimmtíu prósent er í raun sanngjarnt þegar maður hugsar út í öll þau verk sem þau fjárfesta í en sem seljast ekki. Þetta fyrirkomulag er ástæðan fyrir því að þetta gengur upp. Ég er alltaf feginn þegar eitthvað selst. Ég og galleristinn höfum oft sett peninga í verk sem er ekki hægt að selja. Þannig að þetta virðist jafnast út á einhvern hátt.“