*

Menning & listir 4. febrúar 2013

Listaverk eins ríkasta manns Íslands - myndir

Skúli Mogensen hefur safnað listaverkum í mörg ár. Hann lánaði MP banka nokkur þeirra þegar hann keypti bankann.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„Ég hef keypt listaverk í mörg ár,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow air og ríkasti maður Íslands, samkvæmt úttekt Viðskiptablaðsins. Og svo mörg voru þau orð, hann vill ekki fara nánar út í þá sálma, þennan hluta eignasafns síns.

Skúli keypti fyrir nokkrum árum skúlptúrinn Obtusa eftir bandaríska listamanninn Rafael Barrios. Níu verk Barrios vöktu heilmikla athygli þegar þau voru sett upp á Madison Avenue á Manhattan í New York í fyrravetur.

Þar á meðal var Obtusa Skúla Mogensen. Fréttablaðið sagði frá því um miðjan nýliðinn mánuð að Hafþór Yngvason, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, hefði leitað eftir því hvort Skúli geti lánað verkið til uppsetningar á mótum Höfðatúns og Borgartúns. Verk Barrios er að finna í listasöfnum víða í Ameríku og í einkasöfnum Juan Carlos, konungs Spánar, og hjónanna Gustavo og Patriciu Phelps Cisneros í Venesúela. Gustavo er á lista Forbes yfir auðugustu einstaklinga í heimi.

Skúli á mun fleiri verk. Þegar hann keypti ásamt fleiri fjárfestum MP banka á 5,5 milljarða króna í apríl árið 2011 þá lánaði Skúli bankanum nokkur þeirra. Þar á meðal er vaxmynd af öryggisverði eftir bandaríska listamanninn Marc Sijan, frímerkaverk eftir Birgi Andrésson og safn hlutabréfa frá fyrri tíð. 

Verkið Sylvester Sijan eftir serbneska listamanninn Marc Sijan (1946 - ). Verkið líkist manni af holdi og blóði og hefur fólk heilsað honum. Þetta er vaxskúlptúr úr olíumáluðu resin. Fyrirmyndin að Syl eins og hann er kallaður, var faðir Marc Sijan. Hann fæddist árið 1919 en lést árið 2011. Syl Sijan vann aldrei fyrir sér sem öryggisvörður. Þvert á móti rak hann tvo veitingastaði í Milwaukee í Bandaríkjunum með góðum árangri. Syl var giftur konu sinni Jane í 70 ár og ólu þau saman upp þrjú börn. 

Það er engu líkara en Syl hafi vökult auga með frímerkjum Birgis Andrésson (1955 - 2007) frá miðjum níunda áratug síðustu aldar í andyri MP Banka í Ármúlanum.

Frumgerðin að frímerkjum Birgis Andréssonar voru frímerki sem komu út í tilefni af Alþingishátíðinni árið 1930. 

Safn gamalla og innrammaðra hlutabréfa er að finna í fundarherbergi MP Banka. Verkin eru í eigu Skúla Mogensen. Hlutabréfasafnið kallast á við útlit bankans sem byggir á hugmyndinni um grafík í peningaseðlum, frímerkjum og verðbréfum – hin hefðbundnu klassísku verðmæti sem „hönd á festir“. 

Á meðal safns hlutabréfa leynist Óskabarn þjóðarinnar - hlutabréf í Eimskipafélaginu gamla.

Fimm þúsund kall í Verslanasambandinu, sem stofnað var árið 1954. Þetta var félag íslenskra kaupmanna og átti að gæta hagsmuna þeirra við innflutning á vörum. Fljótlega eftir stofnun félagsins ákváðu kaupmennirnir að stofna skipafélag sem sæi um flutninginn fyrir þá. Fjórum árum síðar varð Hafskip að veruleika.