*

Bílar 3. júlí 2018

Lítið villidýr

Þetta er enginn venjulegur Yaris. Langt frá því. Maður gæti sagt að þetta sé Yaris á sterum en þetta er samt bara eins og allt annar bíll.

Róbert Róbertsson

Eftir 17 ára fjarveru tekur Toyota-teymið þátt í FIA heimsmeistarakeppninni í rallý með 2017 útfærslunni af Yaris WRC. Þátttakan í keppninni varð innblásturinn að þessum nýja Yaris GRMN. Þetta er kraftmikill smábíll sem var prófaður og betrumbættur á kappakstursbrautinni Nürburgring’s Nordschleife í Þýskalandi. 

Þetta er enginn venjulegur Yaris. Langt frá því. Maður gæti sagt að þetta sé Yaris á sterum en þetta er samt bara eins og allt annar bíll. Þetta er lítið villidýr. Undir húddinu er mjög kraftmikil 1,8 lítra bensínvél sem skilar 210 hestöflum. Bíllinn er aðeins 6,3 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Togið er 250 Nm sem er mjög gott fyrir svona lítinn og léttan bíl. 

Magnað stuð 

Aksturinn var þvílíkt skemmtilegur og sportlegur. Ég naut þeirrar ánægju að hafa Kristján Einar Kristjánsson, margreyndan kappakstursbílstjóra úr Formúlu 3 kappakstrinum, með mér í akstrinum. Fyrst sýndi Kristján mér hvernig best væri að keyra bílinn á brautinni til að ná sem mestu út úr honum. Síðan tók ég við stýrinu og þvílíkt og annað eins. Það var magnað stuð að gefa þessu litla villidýri inn á brautinni. Ég sat límdur við stýrið í sérhönnuðu sportsætinu hönnuðu af Toyota Boshoku meðan bíllinn þeyttist áfram. 

Á lengsta beina brautarkaflanum á kvartmílubrautinni náði ég bílnum í mikinn hraða áður en ég bremsaði aðeins og kastaði honum í beygjurnar. Hann náði að halda ótrúlega vel velli og liggja býsna vel í beygjunum á mikilli ferð miðað við hvað hann er léttur. Bíllinn hefur fengið uppfærðan jafnvægisbúnað sem hjálpar til við þetta. Hann stóð sig raunar betur en ég hafði þorað að vona og aflið er þvílíkt að hann flýgur bókstaflega áfram. Nýr og betri undirvagn með auka styrkingarbút á milli fremri demparaturna hjálpa líka til við að gefa betri akstursupplifun. 

Nánar er fjallað um málið í Bílum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Toyota  • Yaris  • GRMN