*

Bílar 8. desember 2017

Litlir sendibílar langvinsælastir

Talsverð fjölgun á nýskráðum atvinnubílum milli ára felst að langmestu leiti í litlum sendibílum undir fimm tonnum.

Alls hafa 3.415 atvinnubílar verið nýskráðir á fyrstu 10 mánuðum ársins. Þetta er talsverð aukning frá síðasta ári en þá hafði 2.991 atvinnubíll selst á sama tíma.

Enn meiri aukning í ferðaþjónustunni setur greinilega mark sitt á nýskráningar atvinnubíla á árinu. Langmestur fjöldi nýskráðra atvinnubíla eru litlir sendibílar undir 5 tonnum. Alls 2.456 slíkir bílar hafa verið nýskráðir á árinu en það eru um 300 fleiri bílar í þessum flokki en á sama tíma í fyrra. Árið 2015 voru alls 1.276 nýir sendibílar skráðir yfir allt árið þannig að um er að ræða gríðarlega aukningu í þessum flokki atvinnubíla.

Mikill meirihluti þessara bíla eru nýttir sem farþegabílar í ferðaþjónustunni. Talsvert mikil sala er einnig í öllum stærðarflokkum hópbifreiða. Það er því ljóst að aukning ferðamanna hefur áfram mikil áhrif á atvinnubílaflóruna. Þá hefur einnig verið góð sala í vörubifreiðum og þá sérstaklega í flokki 5-12 tonna og 12 tonna og stærri.

Umtalsverð fjölgun síðustu 4 ár

Nýskráningum hefur fjölgað jafnt og þétt í mörgum flokkum atvinnubíla undanfarin ár eftir frekar mögur ár á erfiðum tímum í íslensku efnahagslífi í og eftir hrunið. Miðað við þessar tölur þá er uppsveifla í gangi samfara því að nauðsynlegt var að endurnýja atvinnubílaflotann sem er orðinn mjög gamall eftir litla endurnýjun í fjölda ára.

Jafn vöxtur var frá 2011-2013 og stórt stökk árið 2014. Síðustu tvö ár var fjölgunin áfram talsvert upp á við og sömu sögu er að segja á þessu ári þar sem fjölgunin er umtalsverð.

Skoda vinsælastur leigubíla

Auk sendibíla og vörubíla í öllum þremur þyngdarflokkum hafa alls 980 nýir leigubílar verið nýskráðir á fyrstu 10 mánuðum ársins og er það einnig aukning í þeim flokki.

Nánar má lesa um málið í Atvinnubílablaðinu, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.