*

Matur og vín 7. apríl 2015

Litlu framleiðendurnir hæst metnir

Coco Chanel takmarkaði kampavínsdrykkju við einungis tvær kringumstæður, þegar hún væri ástfangin og svo ekki ástfangin.

Arnar Sigurðsson

Flestir kampavínsbændur selja til stærri húsanna þrúgur sem jafnframt eru nokkurs konar vínsamsölur sem taka við berjum víðsvegar að. Víngerðin felst svo m.a. í að blanda mismunandi berjum af hinum ýmsu svæðum og gjarnan allt að 6 árgöngum til að ná svokallaðri húsblöndu. Þannig reyna menn að ná stöðugleika frá einu ári til annars, m.a. með því að sníða af sérkenni mismunandi árganga en eðli málsins samkvæmt eru sumur misjöfn á jafn norðlægum slóðum og í Champagne. Nokkur af stærstu kampavínshúsunum eru þekkt hér á landi og hugsanlega gætu flestir þulið upp nöfn á kannski 6-8 framleiðendum óundirbúið. En þó að magn og gæði geti vissulega farið saman er það reyndar svo að oft eru það litlu framleiðendurnir sem eru hæst metnir af þeim sem best til þekkja. Ef spurt er til vega hjá vínþjónum á betri veitingahúsum og hótelum svæðisins, koma nöfn stóru framleiðendanna aldrei til tals.

Handverks-Kampavín

Hugtakið ,,Grovers- eða Artisanal Champagne“ nær yfir minni framleiðendur svæðisins sem í mörgum tilfellum búa yfir góðum ekrum en vilja fara aðra leið en stóru samlagshúsin. Grunnhugmyndin er augljóslega að búa til ljúffeng kampavín en til viðbótar eigi náttúran að eiga sinn sess í endanlegri afurð. Þannig eigi veðurfar í hverju ári sem og jarðvegur hverrar ekru að skila einkennum sem gefi sérstaka eiginleika. Ekki er óalgengt að slíkir framleiðendur geri 40-80.000 flöskur á ári en til samanburðar framleiðir t.d. Moët & Chandon um 30 milljónir flaskna árlega. Einn þekktasti úr þeirri röð er Jacques Selosse sem jafnframt rekur hótel og ferðaþjónustu í bænum Avize í suðurhluta héraðsins sem alveg er hægt að mæla með.

Viðbættur sykur

Flest kampavín innihalda viðbættan sykur, nánar tiltekið sýróp sem bætt er í eftir gerjun, ,,Dosage“. Fyrr á öldum innihéldu kampavín mun meiri sykur en nú tíðkast en reyndar er stöðug leitni niður á við og er nú svo komið að talsvert magn af kampavíni er selt sem fellur undir ,,Zero Dosage“. Slík kampavín sem og ,,Extra Brut“ kunna að þykja nokkuð harkaleg við fyrsta sopa en vinna á og henta vel með mat.

Gæði vínsins á vínekrunni 

Alls eru 19.000 bændur í Champagne héraði en þar af eru 5.000 sem framleiða hina endanlegu vöru í eigin nafni. Alls eru 12 kampavínstegundir til sölu í ÁTVR eða 0,2% af því sem framleitt er og flokka aðdáendur ríkisverslunar slíkt sem ,,gott úrval“. Viðskiptavinir ÁTVR þurfa ekki á fjölbreytni eða kynningu á handverks-kampavínum að halda að mati hins opinbera og því sjást slík vín sjaldan lengi í hillum verslana.

Fróðleiksmolar um kampavín

  • 47 milljónir loftbólna eru að meðaltali í einni flösku (lauslega talið)
  • Churchill var svo hrifinn af Pol Roger í árgangi 1947 að hann lét setja til hliðar 20.000 flöskur til seinni tíma neyslu sem að sögn var ein flaska á dag.
  • Kampavín er eina vínið sem skilur við konu með óbreytta fegurð eftir neyslu – Madame de Pompadour.
  • Coco Chanel takmarkaði kampavínsdrykkju við einungis tvær kringumstæður, þegar hún væri ástfangin og svo ekki ástfangin.
  • Kampavínið ,,Dom Perignon“ var fyrst framleitt 1936, rúmum 200 árum eftir andlát munksins af Moët & Chandon.
  • Napóleon birgði sig upp af kampavíni til að halda upp á yfirvofandi sigur í orrustum með undantekningu fyrir orrustuna um Waterloo.
  • Bestu árgangar undanfarinna ára: 1996, 2002, 2004 og 2008.

Nánari umfjöllun má nálgast í síðasta tölublaði Eftir vinnu hér. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Stikkorð: Kampavín