*

Hitt og þetta 14. júlí 2013

Litlu leyndarmálin í Reykjavík

Ef þig langar til að gera eitthvað gáfulegt, borða eitthvað gott, drekka einhverja dýrð og upplifa eitthvað vandað, kíktu þá á þessa staði.

Lára Björg Björnsdóttir

Maður á auðvitað ekki að segja frá þessu því nú munu allir herja á þessa staði en stundum þarf hreinlega að segja frá ákveðnum hlutum. Staðirnir hér að neðan eru allir góðir, hver á sinn hátt. 

Kaffi Klassík

Í gamla daga var hjá Bakarameistaranum í Borgarkringlunni hægt að fá crépes með gulum baunum, sveppum (niðursoðnum að sjálfsögðu) og sinnepssósu. Fyrir ykkur sem eruð orðin leið á týpulegum tapasréttum og sushi­áti niðri á höfn þá má alltaf rúlla á Kaffi Klassík í Kringluna og skella sér á eina crépes, til dæmis Mílanó en á henni er pepperoni, grjón, sveppir, púrra, ostur og hvítlauks­ eða pitsasósa.

Haninn í Skeifunni

„Ef þú ætlar að selja kjúkling þá áttu bara að selja kjúkling,“ segir aðdáandi Hanans í Skeif­unni. Haninn er matsölustaður sem selur einmitt kjúkling. Staðurinn er skemmtileg blanda af skyndibitastað og „hefðbundnum” veitingastað. Í fljótu bragði virðist bambusviður þekja af­ greiðsluborðið og hvert sem litið er má sjá tré og panel. Minnir dáldið á kósí hænsnakofa. Þjónustan er snögg og góð, fólk pantar við afgreiðsluborð og finnur sér svo sæti. Stuttu síðar er kjúkling­urinn borinn fram á diskum úr þungu postulíni. Hnífapör, drykki og endalaust úrval af sósum má finna á stóru borði inni á miðjum staðnum. Þarna ferð þú til að fá kjúkling, án þess að þurfa að bíða og á góðu verði.

Sundhöllin

Fyrir fólk sem elskar sjarmerandi gömul hús, fílar sund og vill bara liggja í sólbaði með sínu eigin kyni þá er Sundhöllin fyrirheitna landið. Ef það er ekki nóg þá eru klefarnir svo huggulegir og gamaldags að sumir vilja helst bara hanga þar og fíla sig.

Fiskbúðin Vegamót

Vegamót á Nesveginum er algjört æði. Fiskurinn er ferskur, úrvalið alltaf gott og síðan er hægt að kaupa alls konar fiskrétti sem þarf einungis að hita í ofni fyrir þau sem kunna ekki að elda en vilja samt borða fisk eins og allir hinir.

Borgarbókasafnið

Á Borgarbókasafninu við Tryggvagötu er næði og einstaklega gaman að eyða heilu eftirmiðdögunum. Fyrir utan að fá bækur að láni þá er hægt að skoða blöð, tímarit og leigja myndir. Á sunnudögum eru uppákomur og allar kynslóðir geta skemmt sér saman. Það er púðaherbergi fyrir yngstu ormana og á neðstu hæðinni er hægt að fá kaffi þó það mætti alveg vera betra á bragðið. Og Borgarbókasafnið er ekki eina bókasafnið sem skemmtilegt er að heimsækja heldur eru bókasöfnin víða á höfuðborgarsvæðinu. 

Eldofninn í Grímsbæ

Þær eru ekki bara geysilega góðar pitsurnar á Eldofninum heldur eru þær á góðu verði. Einn aðdáandi hafði þetta að segja um staðinn: „Þú ert ekki inni í miðjum Eldsmiðju­ troðningnum á Eldofninum. Það er ákveðinn sjarmi yfir þessari hverfisbúllu."

101 Hótel

Barinn og veitingastaðurinn á 101 hóteli er ekki lengur troðfullur af ölvuðu liði í „eftir vinnu drykk“ (það er allt á Marína). Nú eru bara passlega margir á staðnum og mikið um huggulega túrista og annað fólk sem vill drekka góð vín og borða ljúffengan mat þar sem stemmningin er afslöppuð. Þjónustan á 101 er og hefur alltaf verið óaðfinnanleg. Fyrir notalega kvöldstund, í fallegu umhverfi og án gólandi verðbréfasala í slitnum Armani­fötum, þá er 101 málið. 

Fylgist með Eftir vinnu hér á Facebook.