*

Sport & peningar 31. júlí 2014

Liverpool er búið með Suárez-peningana

Ensku liðið hafa keypt leikmenn fyrir 399 milljónir punda. Nettó hefur Arsenal eytt mestu og Liverpool er búið með Suárez-peningana.

Trausti Hafliðason

Rúmlega tvær vikur eru í að enski boltinn byrji að rúlla og nú þegar hafa liðin sem lentu í tíu efstu sætunum á síðasta tímabili keypt nýja leikmenn fyrir 399 milljónir punda eða rúma 78 milljarða króna. Þessi sömu lið hafa selt leikmenn fyrir tæpar 279 milljónir punda eða 54 milljarða og nettó hafa þau því eytt 24 milljörðum í leikmenn.

Félagaskiptaglugginn er venjulega opinn til 31. ágúst en þar sem það er sunnudagur að þessu sinni þá lokar glugginn í ár ekki fyrr en mánudaginn 1. september, klukkan 22 að íslenskum tíma.

Núverandi meistarar, Manchester City, hafa ekki selt einn einasta leikmann í sumar. Liðið hefur hins vegar bætt við sig tveimur leikmönnum, brasilíska miðjumanninum Fernando og argentínska markverðinum Willy Caballero. Næsta víst er talið að þriðji leikmaðurinn bætist við innan skamms en það er franski varnarmaðurinn Eliaquim Mangala, sem metinn er á 32 milljónir punda.

Liverpool, sem lenti í öðru sæti á síðasta tímabili, hefur þegar keypt leikmenn fyrir 89 milljónir punda í sumar. Það þýðir að liðið hefur eytt öllum peningunum sem það fékk fyrir úrúgvæska sóknarleikmanninn Luis Suárez, sem var seldur til Barcelona fyrir 75 milljónir punda fyrr í sumar. Liverpool hefur notað peningana til að kaupa sex leikmenn.

Chelsea, sem hafnaði í þriðja sæti á síðasta tímabili, hefur þegar styrkt sig verulega fyrir komandi leiktíð og keypt leikmenn fyrir 85 milljónir eða meira en nokkurt annað lið. Liðið hefur selt leikmenn fyrir 72,7 milljónir og nettó hefur Chelsea því keypt leikmenn fyrir ríflega 12,3 milljónir punda.

Arsenal hefur einnig gert góð kaup í sumar og munar þar mestu um sóknarmanninn Alexis Sánchez, sem var keyptur á 35 milljónir punda frá Barcelona. Eins og staðan er í dag er hann dýrasti leikmaðurinn sem keyptur hefur verið til ensks liðs í sumar, það á þó mjög líklega eftir að breytast. Nettó hefur Arsenal eytt mestu í leikmenn það sem af er sumri.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.