*

Sport & peningar 18. janúar 2005

Liverpool í breyttum heimi

Undanfarin áratug höfum við séð miklar breytingar á rekstrarumhverfi margra af stærstu knattspyrnufélaga heims þar sem reynt hefur verið að breyta hefðbundnum knattspyrnufélögum í alþjóðleg vörumerki í afþreyingariðnaðinum. Nokkuð sem Bandaríkjamenn gerðu fyrir löngu síðan með sinn íþróttarekstur. Það hefur meðal annars haft það í för með sér að félög (les. vörumerki) ganga kaupum og sölum og eru síður en svo bundin við eina borg eða einn hóp stuðningsmanna. Heldur vélrænt myndu margir segja en staðreynd engu að síður.

En það skiptir miklu máli fyrir þá sem reka íþróttafélög í dag að geta rekið þau sem markaðsdrifin afþreyingarfélög fremur en trúfélag þar sem safnaðarmeðlimir hittast yfir bjórkrús á hverjum laugardegi og blóta öllu í sand og ösku! Eitt þeirra félaga sem er að átta sig á þessu er Liverpool en rekstur þess var lengi vel talin brandari í markaðsfræðunum. Á meðan flest stóru félögin voru að selja umtalsvert magn af vörum í gegnum Netið var félagið ekki einu sinni með starfhæfa heimasíðu! Það er staðreynd að Liverpool var síðast stóru úrvalsdeildarliðanna að setja upp heimasíðu og það hefur verið langt á eftir öðrum félögum í vörusölu. Sem dæmi má nefna að það var fyrst á síðasta ári sem Liverpool hóf að markaðssetja vörur merktar ákveðnum leikmönnum. Markaðssnillingarnir hjá Rauðu djöflunum hlægja dátt að Rauða hernum.

Viðskiptatækifæri

Um margra ára skeið hefur það verið trú fjárfesta að viðskiptatækifæri geti falist í rekstri Liverpool. Það byggist á því að félagið er þrátt fyrir allt eitt af 10 þekktustu knattspyrnuliðum heims og á enn áhangendur um allan heim, þökk sé frábæru gengi þess á áttunda og níunda áratugnum. Á þeim tíma nældi félagið sér í fjóra evrópumeistaratitla og var nánast áskrifandi að enska meistaratitlinum. Sumir vilja reyndar halda því fram að borgin sé orðin of lítil til að hýsa stórlið á evrópskan mælikvarða en það svæði við Mersey ánna sem telst til heimasvæðis liðsins telur nú aðeins um 439.000 íbúa. Félagið hefur orðið að sjá að baki þriðjungi stuðningsmanna sinna síðan það sigraði fyrst í evrópukeppni.

Eigi að síður hafa margir orðið til þess að sýna því áhuga að taka yfir liðið. Liverpool hefur ekki tekið þátt í hlutafélagavæðingu undanfarinna ára og því átt erfitt með að sækja sér nýtt fé. Félagið er hlutafélag í einkaeign ef svo má segja. David Moores stjórnarformaður Liverpool á 51.4% hlut í félaginu. David er milljarðamæringur úr Littlewoods-fjölskyldunni svokölluðu frá Liverpool sem auðgaðist meðal annars á getraunastarfsemi. David er harður stuðningsmaður félagsins og á yngri árum stóð hann á The Kop með verkamönnum og öðrum sem þar voru. Hann hefur verið aðaleigandi Liverpool í allmörg ár og sett stórfé í félagið, þó ekki nóg að margra mati.

Skrautlegur kaupendalisti

Listi yfir væntanlega kaupendur verður að teljast nokkuð skrautlegur en þar á meðal eru Gadaffi-fjölskyldan velþekkta, tælenska ríkisstjórnin og viðskiptajöfurinn Steven Morgan sem á ættir sínar að rekja til Mersey. Nú síðast hafa bandarískir auðjöfrar, Kraft-fjölskyldan svokallað, sýnt félaginu áhuga en hún á fyrir bandaríska ruðningsfélagið New England Patriots. Áætlun þeirra felst í því að kaupa félagið, fá fyrrum framkvæmdastjóra og leikmann, Kenny Dalglish í stjórnina og hefja félagið á ný til vegs og virðingar. Eins og sumir þreytast seint á að segja; knattspyrna er einfaldur leikur en á það við um reksturinn?

Velta og gróði félagsins gæti verið mun meiri að margra mati. Innan stjórnar félagsins hefur verið rætt um að setja félagið á almennan hlutabréfamarkað en David Moores hefur staðið í vegi fyrir því. Hann vill frekar halda núverandi fyrirkomulagi og setja sjálfur fjármagn í reksturinn. Eftir stendur að almenningur hefur ekki aðgang að félaginu með hlutabréfakaupum. Sumarið 1999 tók Liverpool stórt skref inn í hringiðu fjármálamarkaðarins. Félagið seldi bresku hótel- og fjölmiðlasamsteypunni Granada 9.9% hlut. Kaupverðið var 22 milljónir punda eða um 2,5 milljarðar króna. Þessir aurar fóru um leið inn í félagið til reksturs. Sumir sögðu að loksins hefði Liverpool verið dregið inn í nútímann á fjármálasviðinu.

Granada er fyrst og fremst þekkt sem sjónvarpsstöð hér á landi en fyrirtækið hefur mörg járn í eldinum. Báðir aðilar töldu sig hafa hag að samningum þessum. Granada vildi nota sér heimfrægð nafns Liverpool og Liverpool fékk fjármagn og sérþekkingu á sviðum fjölmiðlunar og tæknimála. Jafnvel hefur verið rætt um að Granada og Liverpool setji upp eigin sjónvarpsstöð líkt og Manchester United. Ljóst er að Liverpool getur gert en betur við að markaðssetja sitt heimsþekkta nafn.

Byggt á Financial Times og www.liverpool.is -- úr Viðskiptablaðinu 5. janúar

Stikkorð: Liverpool