*

Sport & peningar 30. janúar 2012

Liverpool klárar 25 milljóna punda samning við Warrior

Warrior Sports mun taka leysa Adidas af hólmi með hönnum og framleiðslu búninga Liverpool. Eru með höfuðstöðvar í Boston líkt og eigendur Liverpool.

Breska knattspyrnuliðið Liverpool hefur skrifað undir samning við bandaríska íþróttavöruframleiðandann Warrior Sports um framleiðslu á búningi félagsins. Samningurinn hefur verið lengi í smíðum en fyrst var greint frá viðræðum Warrior Sports við Liverpool sl. vor.

Warrior Sports mun því leysa þýska íþróttavöruframleiðandann Adidas af hólmi frá og með júní á þessu ári. Adidas hefur séð um hönnun og framleiðslu á búningunum frá árinu 2006. Warrior Sports er með aðsetur í Boston líkt og Fenway Sporst Group, eigendur Liverpool.

Þá mun Warrior Sports einnig hanna þrjár gerðir af búningi félagsins, fyrir heimaleiki, útileiki og þriðja búninginn eins og venja er. Auk þess mun félagið hanna og framleiða æfingarbúninga fyrir Liverpool.

Andvirði samningsins hefur ekki verið gefið upp en BBC greinir frá því að andvirði samningsins nemi um 25 milljónum Sterlingspunda á ári. Til samanburðar fær Manchester United 23,5 milljónir punda fyrir að spila í búningum frá Nike. Treyjur og búningar Liverpool eru meðal mest seldu knattspyrnubúninga í heimi, en aðeins þrjú félög í heiminum selja fleiri búninga. Það eru Manchester United, Barcelona og Real Madrid.

Liverpool er ekki fyrsta liðið til að semja um nýja framleiðslu á búningum sínum í vetur, því Tottenham Hotspur samdi í fyrra við annan bandarískan framleiðanda, Under Armour.

Stikkorð: liverpool  • Warrior Sports