*

Sport & peningar 25. október 2019

Liverpool lagði New Balance

New Balance höfðaði mál gegn knattspyrnuliðinu því það taldi sig eiga rétt á að framlengja búningasamning sinn við félagið.

Enska knattspyrnufélagið Liverpool mun færa sig yfir í keppnistreyjur frá Nike á næsta keppnistímabili. Það fékkst endanlega staðfest í dag þegar Liverpool vann dómsmál sem bandaríski íþróttavöruframleiðandinn New Balance höfðaði gegn félaginu. New Balance taldi sig eiga rétt á að framlengja núgildandi búningasamning sinn við Liverpool sjálfkrafa ef það jafnaði boð samkeppnisaðila. Umræddur samningur rennur út í maí á næsta ári, en enska félagið hefur leikið í treyjum New Balance frá árinu 2015. BBC greinir frá þessu.

Liverpool taldi New Balance hins vegar ekki hafa jafnað boð Nike hvað markaðssetningu varðar. Var dómurinn sammála félaginu og sagði ljóst að boð New Balance væri ekki jafn fýsilegt hvað markaðssetningu varðar. Því var kröfu New Balance vísað frá dómi.

Umrætt tilboð Nike er talið fela í sér fimm ára búningasamning sem tryggir Liverpool 30 milljóna punda greiðslu á hverju ári samningstímans. 

Stikkorð: Nike  • Liverpool  • New Balance