*

Menning & listir 5. júní 2015

Bræla opnaði í dag

Þröstur Njálsson, áhugaljósmyndari og sjómaður opnaði sína aðra ljósmyndasýningu á Sjóminjasafni Reykjavíkur í dag.

Í hádeginu í dag opnaði ljósmyndasýningin Bræla á Sjóminjasafni Reykjavíkur. Á sýningunni má sjá ljósmyndir eftir Þröst Njálsson áhugaljósmyndara og skipverja sem hefur meðal annars unnið sem fréttaljósmyndari hjá Viðskiptablaðinu og Fiskifréttum. 

Bræla er önnur einkasýning Þrastar. Hann er skipverji á Ásbirni RE50. Ásbjörn er gerður út af HB Granda sem stendur fyrir þessari ljósmyndasýningu í samstarfi við Sjóminjasafn Reykjavíkur. 

Í lýsingu á sýningunni segir Þröstur meðal annars. „Ég fór fyrst á sjóinn árið 2003. Fyrsti túrinn var í mars, þegar veður eru hve vályndust og við lentum í vindum uppá 45 metra á sekúndu og 20 metra ölduhæð. Ég var þó aldrei óttasleginn og hef ekki verið þar síðan. Ég vissi að þarna ætti ég heima.“

Þröstur segist hafa byrjað að ljósmynda af alvöru árið 2012. Stuttu síðar byrjaði hann að læra köfun og byrjaði að ljósmynda neðansjávar. „Á meðan ég var að finna mína hillu tók ég aðallega portrett en eftir rúm 3 ár og eina ljósmyndasýningu með neðansjávarmyndum er ég nú farinn að einbeita mér að mannlífi, óveðrum, landslagi og ekki síst sjómennsku.“

Sýningin stendur til 20. september 2015.