*

Ferðalög & útivist 19. apríl 2013

Loftbelgjaflug hafið á ný í Egyptalandi

Loftbelgir svífa yfir Lúxor á ný eftir slys sem varð 19 ferðamönnum að bana fyrr í vetur. Öryggisreglur hafa þó verið hertar.

Loftbelgjaflug hófst á ný í Lúxor í Egyptalandi á miðvikudaginn eftir að hafa legið niðri síðan 19 ferðamenn létust í slysi 26. febrúar síðast liðinn. CNN segir frá þessu á fréttasíðu sinni. 

Eftir slysið bönnuðu stjórnvöld í landinu loftbelgjaflug. Í slysinu sprungu gasdúnkar um borð með þeim afleiðingum að loftbelgurinn hrapaði til jarðar. Slysið er það mannskæðasta loftbelgjaslysið í heiminum síðustu 20 árin.

Fyrirtækið Sky Cruise, sem bar ábyrgð á slysinu, er þó enn í banni á meðan rannsókn á slysinu stendur yfir. Einnig hefur týpan af loftbelgnum sem hrapaði verið bönnuð og allar aðrar öryggisráðstafanir verið hertar í tengslum við loftbelgjaflug.

Farþegar eru líka látnir undirrita skjal þar sem þeir lýsa því yfir að þeir fljúgi á eigin ábyrgð. 

Stikkorð: Egyptaland  • Loftbelgir  • Lúxor