*

Heilsa 17. janúar 2013

Loftið í flugvélum afskaplega gott

Haraldur Briem sóttvarnarlæknir segir ekki rétt að vont loft í flugvélum valdi því að fólk veikist í ferðalögum.

Lára Björg Björnsdóttir

Umræðan um loftræstikerfi flugvéla dúkkar reglulega upp og  þá sérstaklega í flensutíð. Því hefur verið haldið fram að nóg sé að einn farþegi hnerri og þá veikist allir farþegar í vélinni. 

Er eitthvað hæft í því að loftræstikerfi flugvéla séu gróðrarstíur farsótta og annarra pesta?

„Ég hef alltaf sagt að flugvélar séu mjög öruggur staður til að vera á því loftræstikerfið í flugvélum er afskaplega gott. Loftið fer um svokallaða hebafiltera en það er sama kerfi og notað er á skurðstofum og í einangrunarherbergjum. Loftið kemur inn að ofan og fer niður eftir gólfinu,“ segir Haraldur Briem sóttvarnarlæknir.

Hann segir fólk þó ekki alveg öruggt fyrir smiti á ferðalaginu öllu því fólk í næstu sætum geti verið með inflúensu eða berkla og þá sé auðvitað smithætta til staðar en öll vélin sé alls ekki í hættu:

„Við megum heldur ekki gleyma því að biðsalirnir fyrir og eftir flug eru varasamir, þar er hægt að fá eitt og annað. Þar er ekki þetta loftræstikerfi,“ segir Haraldur.  

Stikkorð: Heilsa  • Ferðalög  • Haraldur Briem