*

Bílar 19. október 2014

Löggjöf til höfuð Tesla

Þingmenn í Michigan vilja ekki að bílaframleiðendur selji bíla sína beint til neytenda.

Þingið í Michiganríki í Bandaríkjunum samþykkti nýlega lög sem munu gera bílaframleiðandanum Tesla erfitt fyrir með sölu á bílum sínum að óbreyttu. Lögin fela það í sér að bílaframleiðendum verður bannað að selja bíla sína beint til neytenda, heldur verða þeir að selja bílana til sjálfstæðra bílasala, sem aftur selja þá til neytenda.

Tesla hefur hingað til viljað eiga og reka sínar eigin bílasölur og hefur því lent upp á kant við samtök bílasala víða um Bandaríkin. Þingmennirnir sem standa á bak við nýju lögin segja að þetta fyrirkomulag Tesla haldi verði háu og bitni á neytendum. Betra sé að fleiri bílasalar bítist um viðskiptin.

Ríkisstjóri Michigan, Rick Snyder, verður að taka ákvörðun fyrir 21. október um það hvort hann staðfestir lögin eða beitir neitunarvaldi sínu.

Stikkorð: Tesla