*

Sport & peningar 31. október 2020

Loka þarf golfvöllum landsins

Þórólfur og Víðir segja „ekki í anda aðgerðanna“ að heimila einstaklingum að spila golf þó hlaup og almenn útivist sé heimil.

Brynjar Eldon Geirsson framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands segir að sóttvarnarlæknir hafi tekið af öll tvímæli um að óheimilt sé að stunda golf og því þurfi að loka golfvöllum landsins.

VIðbragðshópur GSÍ óskaði eftir skýrum svörum frá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnarlækni og Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra því ekki var nægilegur samhljómur í hertum sóttvarnaraðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins sem tilkynnt var um í gær.

Að mati hópsins er ekki nægur samhljómur á milli þess að segja annars vegar að íþróttir (þar með talið æfingar og keppni) utandyra án snertingar séu óheimilar og hins vegar leyfa „einstaklingsbundnar æfingar án snertingar, svo sem útihlaup eða sambærilega hreyfingu“.

Segir Brynjar Eldon svarið sem fékkst vera afdráttarlaust en þar segir það ekki vera í anda aðgerðanna að leyfa að spila golf þó einungis einn sé að spila í einu, eitt þurfi að ganga yfir allar formlegar íþróttir svo engin reyni að túlka reglurnar til að undanskilja sjálfan sig.

Hægt er að sjá umfjöllun um málið í heild sinni á vef GSÍ, en hér sést niðurlag svars Þórólfs og Víðis til sambandsins:

„Í okkar huga var þetta einfalt og skýrt. Allar æfingar og keppnir í íþróttum væri óheimilar og við töldum golf vera íþrótt.

Núverandi ástand kallar á harðar aðgerðir og því mikilvægt að engin reyni að túlka reglur með þeim hætti að hann sé undanþeginn.

Það þarf að hægja á allri starfsemi í samfélaginu, minka samneyti og óþarfa ferðir fólks. Það að leyfa að spila golf þó að aðeins einn sé á hverri braut er ekki í anda aðgerðanna.

Víðir og Þórólfur.“