*

Tíska og hönnun 12. október 2016

Louis Vuitton ódýrast í Lundúnum

Vegna veikingar breska pundsins og varkárni verslunarmanna fást lúxusvörur nú mun ódýrari í Bretlandi en annars staðar

Samkvæmt rannsókn Deloitte þá eru hönnunar- og lúxusvörur ódýrastar í Lundúnaborg ef horft er til verðs þeirra í Bandaríkjadölum.

Kemur þetta til vegna veikingar breska pundsins í kjölfar þess að Bretar kusu að ganga út úr Evrópusambandinu. Síðan í júnímánuði hefur pundið veikst um meira en 17% gagnvart Bandaríkjadal.

Mikill verðmunur

Samkvæmt rannsókninni sem gerð var fyrir Wall Street Journal, kostaði Speedy 30 handtaska frá Louis Vuitton 645 pund þann 7. október síðastliðinn, sem nemur 91 þúsund krónum.

Samkvæmt frétt BBC um málið þá nemur það um 802 Bandaríkjadölum, en í París kostar sama taska 760 evrur, eða 850 dali og 970 dali í New York. Í Kína kostar slík taska 7.450 yuan, eða 1.115 dali.

Aðdráttarafl fyrir ferðamenn

Nick Pope hjá Deloitte sagði í viðtali við BBC að í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefði komið tímabil lækkunar sem hefði reynst aðdráttarafl fyrir ferðamenn en þeir kaupa meira en helming allra lúxusvara sem eru til sölu í Bretlandi.

Þetta rímar við opinberar tölur sem sína að 3,8 milljón erlendir gestir komu til landsins í júlímánuði, sem er 2% aukning frá sama mánuði fyrir ári síðan. Heildareyðsla þeirra í landinu nam 2,5 milljarði punda, eða 353 milljarði króna.

Verslunarmenn halda aftur af hækkunum

Samkvæmt rannsókn Deloitte hafði verð hækkað á sumum vörum í kjölfar veikingar pundsins, en margir verslunarmenn hefðu haldið verðinu lágu til að missa ekki viðskipti. Segja þeir að 64% allra samanburðarhæfra lúxusvara nú vera ódýrari í Bretlandi heldur en nokkurs staðar annars staðar.

Önnur dæmi má nefna Foulard Fringe Dress frá Balenciaga, sem nú kostar um 400 dölum minna í Bretlandi heldur en í Bandaríkjunum.

Kasmírpeysa með v-hálsmáli fyrir karlmenn, frá Brunello Cucinelli, kostar nú 650 pund, eða 843 dali í Bretlandi í samanburði við 942 dali í Frakklandi og 995 dali í Bandaríkjunum.

Stikkorð: Bretland  • lúxusvörur  • Louis Vuitton  • pundið  • handtöskur