*

Hleð spilara...
Tölvur & tækni 4. desember 2012

Lumia 920 - myndavélin gerir útslagið

Nýjasti farsíminn frá Nokia var að koma í búðir. Viðskiptablaðið er búið að prófa græjuna.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

Nýjasti farsíminn frá Nokia í Lumia-seríunni, Lumia 920, lenti á skerinu um mánaðamótin. Tækjafíklar og tækninerðir hafa beðið fullir eftirvæntingar við enda færibandsins hjá Nokia eftir símanum enda er sagt að þetta sé græjan sem muni skera úr um það hvort Nokia lifir eða hvort tilvist þess færist í sögubækur. Viðskiptablaðið er búið að prófa símann í nokkra daga og kom hann á óvart. Þrátt fyrir að vera svolítið fyrirferðamikill fyrsta kastið þá hverfur sú tilfinning fljótt. Þetta er jafnt vinnutæki sem sími - og tekur flottar myndir, nokkuð sem mér þykir mikill plús. 

Kíkjum á græjuna

Þegar ég tók upp Nokia Lumia 920 í fyrsta sinn þá kom mér strax til hugar nafnið á annarri hljómplötu Halla og Ladda, Hlunkur er þetta. Síminn er 185 grömm, sem er 65% meira en iPhone 5 og nokkuð yfir 133 grömmunum í Samsung Galaxy S III. Hann er að sama skapi eilítið þykkari um sig en hinir símarnir tveir. Þyngdin á sér eðlilegar skýringar: Í fyrsta lagi tekur þráðlausa hleðslutæknin í símanum pláss auk þess sem myndavélabúnaðurinn í stærri kantinum. Myndavélin byggir ekki á hugbúnaðarbrellum heldur er þetta alvöru vélbúnaður. Þetta er jú alvöru græja.

Hröð keyrsla og flott forritaverslun

Þeir sem hafa snert á Lumia-síma ættu að kannast við sig. Hér er hins vegar engin bráðabirgðaútgáfa á ferðinni eins og í gömlu símunum (þeir keyrðu á stýrikerfinu Windows Phone 7 sem ekki er uppfæranlegt). Hér er það Windows 8, sem Microsoft setti á markað á dögunum. Keyrslan er fín enda kraftur í örgjörvanum.  Síminn er með 1,5 GHz tvíkjarna Snapdragon-örgjörva í stað 1,4 GHz örgjörvanum í fyrri Lumia-símum. Ég gengst fúslega við því að Windows-stýrikerfið  er hressandi andvari í farsímaflóruna og gerir nákvæmlega það sem því er ætlað. Þá er smáforritaverslunin ágætlega birg af þeim tólum og tækjum sem á þarf að halda þótt vissulega mætti hún vera betri. Ég geri ráð fyrir því að hún batni með tímanum enda hefur Microsoft gefið út að stýrikerfið sé samhæft fyrir hvort heldur er síma, spjaldtölvur og hefðbundnari tölvur og allt er þetta sótt í einn og sama brunninn, sem er stór plús. 

Góð myndavél 

Fyrir utan skemmtilega virkni stýrikerfisins og hraðra vinnslu þá varð það myndavélin sem heillaði mig. Hún er reyndar í einfaldari kantinum, aðeins einn flipi af mörgum á skjáborðinu og með aðeins tveimur smellum er hægt að taka prýðilega mynd. Ég hef átt nokkra síma í gegnum tíðina. Einn þeirra er sleðasíminn Nokia 6500 Slide, sem var þokkalegur á sínum tíma. Myndavél símans var tók myndir með góðum og skörpum litum. Þá eins og nú er linsan frá Carl Zeiss. Í Lumia 920 er hins vegar boðið upp á nýja innanhússtækni frá Nokia sem kom fram í PureView 808-símanum sem leit dagsins ljós í byrjun árs. Reyndar er erfitt að bera símana saman þar sem PureView er nær því að vera myndavél með síma (myndavélin er 41 MP) á meðan Lumia 920 er sími með myndavél (8,7 MP). 

Myndir sem eru teknar eru að kvöldi á Lumia 920 eða þar sem birta er takmörkuð eru framúrskarandi og gæðin talsvert betri en á öðrum símum af svipuðu kaliberi. Það sem mestu munar er fókusinn á myndunum, sem var á nær öllum myndunum sem ég tók á símann en heyrir því miður til undantekninga á öðrum, s.s. Samsung Galaxy S III, síma sem ræður illa við myrkrið. Á hinn bóginn var á köflum eins og myndavélin næði ekki að höndla litadýrðina nógu vel á myndum sem teknar voru í björtu. Þar hefði ég viljað sjá betri liti. 

Þegar kemur að myndbandsupptökum skarar Lumia-síminn fram úr öðrum. Ég stend fast á því að myndgæðin í vídeóunum eru með þeim betri sem ég hef séð. Myndböndin eru skörp og litirnir djúpir – alveg eins og ég vill hafa þá. Ofan á það bætir hristivörnin í linsunni gæðin verulega. En einmitt þetta – linsan – gerir það að verkum að síminn er þyngri en sambærilegir símar á markaðnum.

Í hnotskurn

Lumia 920 er líkur sumum forverunum í Lumia-seríunni að því leyti að hann virkar klunnalegur og þungur í fyrstu. Tilfinningin er fljót að hverfa. Myndavélin gerði nákvæmlega það sem ég hef leitað eftir enda linsan betri en almennt er að finna í farsímum. Myndir sem teknar eru við léleg birtuskilyrði eru sérstaklega góðar - í raun slær myndavélin aðra síma sem ég hef prófað út af borðinu í samanburði. Eins og áður sagði er það upptökuvélin sem gerir útslagið, þar koma gæði linsunnar í ljós. Þeir sem vilja vinnutæki og góða myndavél ættu að skoða Lumia 920. Þeir sem hins vegar vilja spóka sig um með minni gerðir, jafnvel monta sig af merkjavöru, ættu að snúa sér annað. 

Einhverjir kynnu þó að setja verðið fyrir sig. Nokia Lumia 920 kostar um 125 þúsund krónur. Til samanburðar kostar iPhone 5 tæpar 180 þúsund krónur og Samsung Galaxy III rétt rúmar 100 þúsund.

Stikkorð: Lumia 920