*

Heilsa 29. september 2013

Lúsin fimmfalt algengari nú en fyrri ár

Best væri að venja sig á að kemba alla fjölskylduna vikulega til hálfsmánaðarlega.

Samkvæmt skráningu heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins voru allt að 2% barna í sumum hverfum borgarinnar með lús á síðasta skólaári sem er fimmföldun á milli ára. Skólahjúkrunarfræðingar sendu einnig 18 þúsund bréf til foreldra vegna lúsarinnar: „Við getum ekki alveg útskýrt hvað veldur þessari aukningu. Eitt af því sem er vitað er að það eru sveiflur í þessu sem eru óútskýranlegar og nú erum við í uppsveiflu,“ segir Ása St. Atladóttir, hjúkrunarfræðingur og verkefnisstjóri hjá sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins.

Ása varar við því að fólk treysti um of á buffin sem sett eru yfir hár barna: „Þó að buffin dragi úr snertingu er þó nauðsynlegt að kemba.“ Ása segir forvarnir bestu leiðina í baráttunni við lúsina: „Fjölskyldur þurfa að venja sig á að hafa fasta lúsakembingu fyrir fjölskylduna, ekki bíða eftir að fá bréfið frá skólanum. Best væri að venja sig á að kemba alla fjölskylduna vikulega til hálfsmánaðarlega,“ segir Ása.

Stikkorð: Lús  • Heilsugæsla