*

Bílar 2. janúar 2022

Lúxus rafbílar

Rafbílar eru að taka yfir bílamarkaðinn og fleiri rafknúnir lúxusbílar hafa litið dagsins ljós á þessu ári.

Róbert Róbertsson

Meðal rafknúinna lúxusbíla sem komið hafa fram á árinu eru bílar frá þýsku lúxusmerkjunum Mercedes-Benz, Audi, BMW og Porsche. Enn er beðið eftir hreinum rafbílum frá bresku og ítölsku lúxusbílaframleiðendunum Aston Martin, Rolls Royce, Lamborghini og Ferrari svo nokkrir séu nefndir en þeir hafa lýst því yfir að þeir muni koma á markað með rafbíla á næstu 2-3 árum. Hér eru nokkrir af heitustu lúxus rafbílunum sem komu á markað á árinu að mati Áramóta.

Mercedes-Benz EQS
EQS er afar tæknivæddur bíll sem notar m.a. gervigreind. EQS verður bæði með framhjóla- og aldrifi. Tvær tegundir rafhlaða verða í boði, 108 kWst og 90 kWst og talsverður fjöldi uppstillinga á drifrásum. Stærri rafhlaðan skilar yfir 700km drægni samkvæmt WLTP og í ákveðinni útfærslu má ná allt að 770km skv. WLTP staðli. Minni rafhlaðan mun skila 640 km samkvæmt WLTP staðlinum. Öflugri gerðin verður 523 hestafla með hámarkstog alls 855 Nm. Minni rafhlaðan skilar 333 hestöflum og 568 Nm í hámarkstogi. Framdrifsútfærsla á EQS með stærri rafhlöðunni er 6,3 sekúndur frá 0-100 km hraða og í aldrifs útfærslunni aðeins 4,3 sekúndur frá 0-100 km hraða

Audi Q4 E-tron Quattro
Audi Q4 E-tron Quattro bætist í hóp rafbíla þýska lúxusbílaframleiðandans. Sportjeppinn er með 82 kWst rafhlöðupakka og tvo rafmótora sem skila allt að 295 hestöflum og allt að 520 km drægni samkvæmt WLTP staðli. Þetta er fyrsti Audi sem byggður er á MEB rafgrunni, sem er eingöngu rafknúinn hjá Volkswagen Group og styður einnig VW ID3 og ID4. Q4 e-tron gerðirnar eru með valkost á sprettiskjá. Sama kerfi er einnig fáanlegt á ID3 og ID4 og sýnir geisla frá stefnuljósum á veginn fram undan sem á að hjálpa ökumönnum við akstur í slæmu skyggni.

Polestar 2
Polestar 2 lúxusrafbíllinn er fyrsti fjöldaframleiddi bíllinn frá sænka framleiðandanum Polestar og var frumsýndur í haust. Pólstjarnan er fjögurra dyra lúxusfólksbíll og framúrstefnulega hannaður með vegan innréttingu sem staðalbúnað, raunar sjálfbærniáherslu í öllu efnisvali. Polestar 2 er í boði á Íslandi með stórri 78 kWst drifrafhlöðu og tveimur rafmótorum sem skila 408 hestöflum og 660 Nm togi. Bíllinn er mjög aflmikill og fljótur upp. Hann er 4,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Hámarkshraðinn er 205 km/klst. Drægni á rafmagninu er 482 km

Hongqi E-HS9 Hongqi
E-HS9 var kynntur til leiks nýverið. Þetta er stór rafknúinn lúxusjeppi ættaður frá Kína. Hann er flaggskip FAW bílaframleiðandans og hreinn rafbíll. Fyrrverandi Rolls Royce hönnuðurinn Giles Taylor er nú hjá Hongqi og hefur lagt sitt af mörkum við hönnun á þessum stóra jeppa kínverska framleiðandans. Það er ekki laust við að það sé einmitt Rolls Royce svipur á Hongqi E-HS9, sérstaklega á framenda jeppans. Bíllinn er með 84 kWst eða 99 kWst rafhlöðum sem skila drægni frá 396-465 km. Það er mikið afl í Hongqi E-HS9 en minni rafhlaðan skilar 429 hestöflum og sú stærri 543 hestöflum. Aflmeiri útgáfan fer úr kyrrstöðu í hundraðið á 4,9 sekúndum og hámarkshraðinn er 200 km/klst.

Fleiri lúxusrafbíla er að finna í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.