*

Bílar 1. febrúar 2020

Lúxusakstur um Rínar- og Móseldalinn

Það var mikil tilhlökkun þegar ég fékk lyklana afhenta að nýjum Lexus UX 250h í Köln í Þýskalandi í haust.

Róbert Róbertsson

UX er nýjasti meðlimur Lexus-fjölskyldunnar og líkist að mörgu leyti stóru bærðrum sínum NX og RX í útliti en bara minni. Japanski lúxusbílaframleiðandinn segir að hönnunin á Lexus bílum byggi á japönsku byggingarlistarnálguninni „engawa", þar sem mörk þess sem er utan á og að innan renna snurðulaust saman. Það er alveg hægt að taka undir þessa staðhæfingu. Allt frá framúrstefnulegri framhliðinni með einkennandi snældulaga grilli til sportlegra útlína og djarflegrar hönnunar afturhlutans leynir sér hvergi að þessi nýi Lexus UX er stórt og kjarkmikið skref á vegferðinni að nýrri nálgun í hönnun lítils sportjeppa.

Mælaborðið leðurklætt með ísaum

Innanrýmið er fallega hannað og það er vandað til verka. Þar hafa japönsku Takumi handverksmeistararnir skapað ríkulega búið og fallegt innanrými fyrir UX og efnisval er sérlega gott. Mjúk leðursætin eru prýdd listrænu gatamynstri og saumuð í anda hefðbundinnar, japanskrar Sashiko-saumalistar. Mælaborðið er meira að segja leðurklætt með ísaum. 10,3" aðgerðarskjárinn veitir innsýn í allt sem tengist akstrinum og afþreyingu. Þá er yfirlitsmynd af umhverfi bílsins úr fjórum myndavélum sem sýnir 360° loftmynd af bílnum og nánasta umhverfi. Þetta er þægilegur búnaður og gefur ökumanni góða yfirsýn. Skífuklukkan er á sínum stað í mælaborðinu sem mér finnst skemmtilegt og dálítið klassískt að sjá. Það eru ekki margir framleiðendur með skífuklukku en Lexus heldur sínu striki og mér finnst það flott. Lexus hefur að mínu mati staðið sig nokkuð vel á hönnunarsviðinu og komið fram með fallega hannaða bíla. UX er engin undantekning.

Prýðileg 184 hestafla tvinnvél

UX býður upp á val á milli tveggja nýhannaðra aflrása. Önnur þeirra er nýjasta kynslóð sjálfhlaðandi Hybrid-aflrásar sem leiðir saman sérlega góða eldsneytisnýtingu. Einnig má velja bensínvélina sem er með fín afköst en eyðir meira. Reynsluakstursbíllinn var með 2 lítra Hybrid vél og fjórhjóladrifinn. Tvinnvélin skilar 184 hestöflum og hámarkstog er 190 Nm. Það er prýðilegt afl í bílnum. Hann er 8,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 180 km/klst. Eyðslan er frá 4,5 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og CO2 losunin er 107 g/km.

Reynsluakstursbíllinn var í Luxury útfærslu sem er sérlega vel búinn. Má þar nefna bílastæðaskynjara að framan og aftan, 13 hátalara Mark Levinson® Premium Surround-hljóðkerfi og sjónlínuskjá sem gefur upp hraða og fleiri upplýsingar á framrúðunni sem er sérlega þægilegt fyrir ökumann þannig að hann þurfi ekki að líta af veginum.

Skipt á milli aksturskerfa

Aksturseiginleikarnir eru mjög góðir og minna raunar meira á fólksbíl en sportjeppa. UX hefur fínan kraft og er ljúfur og lipur í akstri. Fjöðrunin er fín og bíllinn liggur vel á veginum m.a. í beygjum þótt stundum hafi verið tekið á því.

Hægt er að velja um akstursstillingar (Drive Mode Select) allt frá Eco til Sport S+ allt eftir því hvernig maður vill hafa aksturslagið. Það er svolítið skemmtilegt að hafa þetta val og kom sér vel í akstrinum því stundum var ekið um borgir og bæi og stundum á hraðbrautum og því upplagt að skipta um akstursstillingu eftir því hversu hratt maður vildi fara yfir. Það var ekkert leiðinlegt að aka í Sport stillingunni á þýsku hraðbrautunum og þar naut sportjeppinn sín vel og fór ótrúlega létt með akstur á umtalsverðum hraða sem verður ekki tíundaður hér. Sjálfskiptingin er frekar mjúk og þægileg og skilar sínu varðandi aksturseiginleika.

Bíllinn býður upp á gott pláss fyrir ökumann og farþega frammí og ágætt pláss afturí. Farangursrými er þægilegt í umgengni og ágætlega plássmikið. Helsti gallinn varðandi UX sem og fleiri sportjeppa er hversu takmarkað útsýni er úr afturgluggunum. Bakkmyndavél fylgir að vísu sem hjálpar mjög til þegar bakkað er. Hönnunin er bara í þessum dúr hjá mörgum bílaframleiðendum í dag þar sem þaklínan lækkar að aftanverðu sem gefur bílnum sportlegra yfirbragð en kemur niður á útsýninu.

Nánar er fjallað um málið í sérblaðinu Bílar sem fylgdi Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: reynsluakstur  • Lexus UX