*

Bílar 20. ágúst 2015

Lúxusbílar sem minna á einkaþotur

Fyrirtækið Becker Automotive Design er vinsælt meðal þeirra sem hafa efni á að lúxusvæða bifreiðar sínar.

Becker Automotive Design er fyrirtæki sem gerbreytir bifreiðum viðskiptavina og býður þeim upp á eins mikinn lúxus og þeir eru tilbúnir að borga fyrir. Becker hefur unnið með fjölda bílaframleiðenda á borð við Rolls Royce, Bentley, Mercedes-Benz, BMW, Porche og Ferrari, en fyrirtækið er starfrækt í Los Angeles.

Meðal viðskiptavina Becker má nefna Jennifer Lopez, Johnny Depp, Eminem, Ben Affleck, konungsfjölskylduna í Dúbaí og fjölmarga aðra fræga aðila sem og þjóðarleiðtoga.

Fyrirtækið sér ekki einungis um að veita lúxus, heldur einnig öryggi. Boðið er upp á að brynverja bílana sem og að setja í þá skothelt gler. Becker vinnur nú í samstarfi við bæði Mercedes-Benz og General Motors um að lúxusvæða bæði Benz langbifreiðar og Cadillac Escalade jeppa. Þá tekur fyrirtækið við sérpöntunum.

Í sumum bílanna er komið fyrir klósettum, í flestum þeirra er frábær aðstaða til að slaka á. Eins og sjá má er engu til sparað þegar kemur að því að hámarka þægindi. Einnig er hægt að koma upp ágætis vinnuaðstöðu fyrir þá sem þurfa að hefja vinnudaginn strax og sest er upp í bílinn.

Þá státar Becker sig af því að vera með frábær hljóð- og myndkerfi í bílum sínum. Taka skal þó fram að bílarnir eru ekki fyrir hvern sem er, en það kostar á bilinu 21 milljón til 69 milljóna að láta breyta bílunum.

Hér má sjá myndband af því hvernig Becker Automotive Design hefur tekið í gegn Mercedes-Benz langbifreið, en hægt er að kynna sér fyrirtækið nánar á heimasíðu þess.

Stikkorð: Bílar  • lúxus