*

Menning & listir 28. september 2012

Lúxusbúnaður James Bond

Lítið verður gefið eftir í lúxusvörukaupum fyrir Skyfall, nýjustu Bond-myndina.

Einn þekktasti njósnari heimsins, James Bond, hefur komið fyrir í 22 myndum síðustu 50 ár. Sú 23. verður frumsýnd 26. október hér á Íslandi. Í tilefni þessa 50 ára sögu hefur verið opnuð sýningin ,,Designing Bond" í London. Þar eru til sýnis allir þeir fylgihlutir sem Bond hefur notað með einum eða öðrum hætti í gegnum árin. 

Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að Bond hefur verið notaður af markaðssérfræðingum enda hefur það þótt mjög jákvætt fyrir vörur að koma þeim í hendurnar á njósnaranum. Eins og sjá má af upptalningunni hér að neðan eru þær flestar af dýrari gerðinni. 

Þrátt fyrir að þessir hlutir séu aðeins brotabrot af þeim klæðnaði og búnaði sem leikarar í Skyfall munu hafa þá eru þessir hluti virði rúmlega 232 þúsund dollurum eða tæplega 29 milljónum íslenskra króna.

 

Bílarnir

Ekki er sú Bond-mynd framleidd án bílasenu þar sem njósnarinn knái eltir skúrkinn eftir mjög hlykkjóttum vegum.

Í myndunum Quantum of Solace og Casino Royale ók James Bond um stræti og torg í Aston Martin DBS. DBS bíllinn er metinn á um 210 þúsund dollara samkvæmt upplýsingum uppboðshúss Christie's. Þetta eru um 26 milljónir íslenskra króna. Samtals voru sjö DBS bílar notaðir við gerð Quantum of Solace. Tveir af þeim voru mjög illa skemmdir eftir bílaeltingaleik.

 

 

 

 

 

 

 

Fötin

Þessu til viðbótar verður James Bond seint sakaður um að vera illa til hafður. Í nýjustu kvikmyndinni, Skyfall, mun Bond meðal annars klæðast jakkafötum frá hönnuðinum Tom Ford sem kosta í kringum sex þúsund dollara, tæplega 750 þúsund krónur.

 

 

 

 

 

 

 

Úrin

Úrframleiðandinn Omega lét gera sérstakt Omega Planet Ocean-úr úr títaníum fyrir Skyfall. Úrið er metið á tæplega 12 þúsund dollara.

 

 

 

 

 

 

 

Skartgripirnir

Bond-stúlkurnar eru alltaf glæsilegar og eru skartgripirnir ekki síðri. Ef þær eru ekki málaðar gulli þá eru þær umvafðar demöntum. Bérénice Marlohe sem leikur Bond-stúlkuna í Skyfall fær að klæðast 4 þúsund dollara eyrnalokkum og hring frá Stephen Webster en leiða má líkur að því að það séu ekki einu skartgripirnir sem hún mun klæðast.

Stikkorð: Aston Martin  • James Bond  • Skyfall  • Omega