*

Bílar 12. apríl 2014

Lúxusjeppi og fullfær í torfærur

Stundum er óþarfi að breyta því sem er gott og flott.

Róbert Róbertsson

Þýski lúxusbílaframleiðandinn BMW kynnti nýverið þriðju kynslóðina af hinum stóra og stæðilega X5 jeppa sem hefur notið mikilla vinsælda síðan hann kom fyrst á markað árið 1999. BMW X5 hefur selst í um 1,3 milljónum eintaka á þessum 15 árum sem verður að teljast prýðilegur árangur. BMW X5 var kynntur með mikill viðhöfn í Hörpunni í janúar en bílablaðamanni Viðskiptablaðsins var boðið að prufukeyra X5 í Þýskalandi og Austurríki nýverið og þar var tekið vel á jeppanum við bestu hugsanlegu aðstæður.

Lúxusbílaframleiðandinn frá Bæjaralandi er yfirleitt frekar íhaldssamur þegar kemur að breytingum á kynslóðum enda óþarfi að breyta því sem gott og flott er. BMW-bílarnir eru flestir mjög vel hannaðir og klassískir í útliti bæði að innan og utan. BMW X5 hefur alltaf verið með útlitið með sér og er einn af best heppnuðu bílum framleiðandans. Þannig hefur ekki verið nein bylting í hinni nýju kynslóð af X5 þótt vissulega megi sjá nokkrar breytingar að utan og innan. Þær mestu eru að framanverðu þar sem jeppinn hefur fengið stærra grill. Hönnunin er heilt yfir beinni og brattari en vel heppnuð og gefur bílnum frísklegt yfirbragð. Að innan er jeppinn laglegur og ættareinkennin leyna sér ekki. Efnisval er mjög gott sem og skipulag á stjórntækjum eins og BMW er von og vísa.

Helstu upplýsingar á framrúðunni

Stór og ílangur skjár er áberandi en þar má sjá allar helstu upplýsingar. Eitt það alflottasta er að stafrænn hraðamælir og aðrar helstu upplýsingar varpast upp á framrúðuna fyrir ökumann svo hann þarf aldrei að taka augun af veginum. Mjög sniðugt sérstaklega þar sem ekki veitir af að horfa á veginn ef maður gefur bílnum aðeins inn. Myndavélar jeppans lásu skilti um hámarkshraða og skelltu á framrúðuna sem kom sér vel, sérstaklega á hraðbrautunum. Þetta er aukabúnaður en var í öllum bílunum sem prófaðir voru í ferðinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: BMW X5