*

Bílar 3. september 2018

Lúxuskerra með sportbílagen í blóðinu

Það fór fiðringur um mig þegar rofanum var snúið niðri vinstra megin við stýrið sem er auðkenni Porsche og magnað hljóðið heyrist í V6 vélinni.

Róbert Róbertsson

Það var mikil spenna og eftirvænting í loftinu þegar ég fékk afhenta lykla af glænýjum Porsche Panamera E-Hybrid Sport Turismo í höfuðstöðvum Porsche í Zuffenhausen skammt fyrir utan Stuttgart á dögunum. Þriggja daga reynsluakstur var framundan á þessari glæsilegu kerru.

Porsche Panamera E-Hybrid Sport Turismo er í fimm dyra langbaksútfærslu en hingað til hefur Porsche Panamera verið í fjögurra dyra stallbaksútfærslu eða svokallaður sedan. Í þessari útfærslu er enn meira pláss og þá sérstaklega aftur í farangrusrýminu sem gerir þennan bíl að enn meiri lífstílsbíl en áður þar sem hægt er að hlaða í hann farangri og búnaði fyrir útivistina eða ferðalögin.

Það fór fiðringur um mig þegar rofanum var snúið niðri vinstra megin við stýrið sem er auðkenni Porsche og magnað hljóðið heyrist í V6 vélinni. Lyklalaust aðgengi eins og búast mátti við. Flottur lykillinn, sem er í laginu eins og bíllinn, er í jakkavasanum og rofanum bara snúið. Hendur á stýrinu þar sem Porsche skjaldamerkið blasir virðulega við og svo er lagt af stað.

Eins og að sitja í Saga Class

Ferðinni á þessum nýja og magnaða bíl var heitið um Svartaskóg sem liggur suður af Stuttgart. Stefnan er sett fyrst á háskólabæinn Tubingen og stór skjárinn fyrir miðju sýnir leiðina með fullkomnu leiðarkerfinu. Þaðan er ekið áfram suður að hinum tignarlega kastala Hochenzollern sem gnæfir yfir sveitirnar. Skjárinn sér líka fyrir öllu afþreyingarkerfi tengdu snjallsímanum. Tónlistin er sett í gang og Burmeister hljóðkerfið í bílnum skilar sínu með glans. Þetta er eins og vera staddur í tónlistarhöll á fjórum hjólum.

Kraftmikil og fáguð hönnun

Bíllinn er stór og rúmgóður, rúmlega 5 metra langur og tæplega tveggja metra breiður. Það fer vel um ökumann og farþega í þessum bíl. Sætin í bílnum eru fjögur, tvö frammí og tvö afturí. Bíllinn er einnig fáanlegur fimm sæta. Þetta er eins og að vera á Saga Class. Þykkt leðrið og falleg hönnunin eins og Porsche er von og vísa. Plássið er mikið og glæsileikinn er allsráðandi í innanrýminu. Það er meira að segja gaman að sitja aftur í í þessum bíl.

Hönnunin er kraftmikil og fáguð að utanverðu. Þetta er bíll með línurnar í lagi og eftir honum er tekið. Hann hefur Porsche ættarsvipinn að framanverðu. Framendi bílsins er svo til sá sami og í hefðbundnum Panamera en afturendinn er heilmikið breyttur með tilkomu afturhlerans. Inndraganlegur loftkljúfur er á afturenda bílsins. Flottar 19 tommu álfelgurnar setja punktinn yfir i-ið.

4,6 sekúndur í hundrað

Porsche Panamera E-Hybrid Sport Turismo er Plug-in Hybrid bíll eða svokallaður tengiltvinnbíll. Hann er gríðarlega aflmikill með 2,9 lítra, V6 bensínvél og rafmótor. Samanlagt aflið skilar 462 hestöflum og hámarkstogið er 700 Nm. Þetta er ekkert smáræði og skilar sér sannarlega í miklu afli fyrir þennan stóra bíl. Hann er aðeins 4,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og 10,8 sekúndur úr kyrrstöðu í 160 km hraða. Hámarkshraðinn er 275 km/klst.

Það er magnað að aka honum á þýskum hraðbrautum og það er hreinlega eins og þjóta áfram í þotu. Aksturseiginleikarnir eru eins og draumur í dós. Bíllinn svífur nánast áfram og sama hversu hratt er farið þá finnur maður varla fyrir hraðanum í bílnum.  Bíllinn er fjórhjóladrifinn og eins og búast má við af Porsche þá fær maður allt það besta út úr akstrinum.

Með sportbílagen í blóðinu

Þessi bíll er með sportbílagenin í blóðinu. Það eru engar málamiðlanir hvað þetta varðar. Innbyggð 4d undirvagnstýringin og PSM stöðuleikakerfið styrkja aksturinn enn frekar. Bíllinn steinliggur á veginum og það er sama þótt tekið sé á honum í beygjum, hann haggast ekki. Það er ekki bara mikið afl heldur er bíllinn í þessari tengiltvinnútfærslu afar umhverfismildur. Eyðslan er aðeins 2,5 lítrar á hundraðið við við blandaðan akstur tengiltvinnvélarinnar. CO2 útblásturinn er aðeins 56 g/km.

Þótt það sé sérlega gaman að aka þessum bíl á hraðbrautum þar sem hratt má fara þá er einnig skemmtilegt að finna hversu vel og auðveldlega hann fer um þröngar og buðgóttar götur bæja og sveita á leiðinni í gegnum Svartaskóg. Eftir næturgistingu í Tubingen var ekið til Baden Baden og á leiðinni var ekið í gegnum marga fallega bæi þar sem hámarkshraðinn var 30 km.  Síðan er gaman að gefa honum í þegar ekið er út úr bæjunum og finna kraftinn undir húddinu og aflið sem tekur mann snögglega upp í hundrað og meira þar sem það má.

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Porsche  • Panamera