*

Bílar 4. febrúar 2017

Á lúxuskerrum um Sviss

Ekið var um sveitir og bæi Sviss á nokkrum af flottustu bílunum úr Lexus flotanum.

Róbert Róbertsson

Lexus er einn yngsti bílaframleiðandi heims. Fyrirtækið er lúxusarmur Toyota og var stofnað árið 1989. Eiji Toyoda, forstjóri Toyota, var hugmyndasmiðurinn á bak við stofnun Lexus. Hann vildi smíða lúxusbíla þar sem framúrskarandi aksturseiginleikar og hágæða hönnun færu saman. Það er ekki hægt að segja annað en Lexus hafi tekist vel til því nú tæpum 27 árum síðar hefur merkið náð vinsældum um heim allan. Alls hafa rúmlega 8 milljónir Lexus bíla selst á heimsvísu síðan 1989.

Þessi ferð til Sviss var miðuð að því að blaðamenn kynntust ekki einungis Lexus-bílunum betur heldur einnig sögu fyrirtækisins og hönnunarheimspeki þess með hina mögnuðu Takami meistarahandverksmenn í broddi fylkingar. Í leiðinni var þetta sannkölluð lífsstílsferð þar sem margt annað var skoðað en bílar, m.a. úr og súkkulaði sem Svisslendingar eru jú hvað þekktastir fyrir.

Hreinræktaður sportbíll

Fyrst var ekið hinum stórskemmtilega sportbíl RC 300h. Hann er fallega hannaður og hreinræktaður sportbíll. Tveggja dyra og maður situr mjög lágt, eiginlega alveg við götuna. Þetta er stórgóður akstursbíll ef maður er að leita að sportlegum eignleikum.

Bíllinn liggur mjög vel og það er hægt að taka vel á honum á hraðbrautinni. Tvinnvélin skilar 178 hestöflum og hámarkashraðinn er tæplega 200. Ekið var meðfram hinu fagra Genfarvatni að hinu tignarlega Chaplin setri í Corsier-sur-Vevey. Þar bjó grínistinn Charlie Chaplin og þar er nú stórskemmtilegt safn tileinkað honum. Þar voru m.a. sýndar tvær áhugaverðar stuttmyndir sem sigruðu í alþjóðlegri stuttmyndakeppni sem Lexus stóð fyrir nýverið.

Stór og stæðilegur lúxusjeppi

Eftir góðan svefn og gómsætan morgunverð á Royal Savoy var næst komið að RX 450h, flaggskipi jeppaflota Lexus. RX 450h er stór og stæðilegur lúxusjeppi. Innanrýmið er vandað og jeppinn er vel búinn þægindum og lúxus eins og Lexus er von og vísa. Leður og viður eru áberandi í innanrýminu og gefa því virðulegan blæ.

RX 450h er með 3,5 lítra V6 tvinnvél þ.e. með sameinaðan bensínhreyfil og rafmagnsmótor. Tvinnvélin skilar jeppanum 313 hestöflum og togið er 335 Nm. RX 450h er 7,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og hámarkshraðinn er 200 km/klst. Eyðslan vekur athygli því eyðslan á þessum stóra bíl er aðeins frá 5,3 lítrum á hundraðið í blönduðum akstri samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda og CO2 losunin er 122 g/km.

Ekið var um fagrar svissneskar sveitir og stoppað í heimsókn í Nestlé-safninu í Vevey. Þar er hægt að skoða merkilegt safn þessa fræga súkkulaðiframleiðanda. Því næst var ekið í gegnum borgina Montreux sem er alveg í austurhorni Genfarvatns. Þessi fallega borg hýsti eitt sinn Eurovision-söngvakeppnina eftir sigur söngkonunnar Celine Dion. 

Nánar er fjallað um málið í Bílar, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Sviss  • Lexus  • bílar