*

Bílar 29. desember 2018

Lúxuskerrur ársins 2018

Nýir og glæsilegir lúxusbílar voru frumsýndir á árinu. Hér eru átta bestu og fallegustu lúxuskerrurnar að okkar mati.

Róbert Róbertsson

Lamborghini kynnti hinn sportjeppa Urus á Íslandi og bílablaðamanni Viðskiptablaðsins bauðst að reynsluaka þessum magnaða lúxusjeppa sem er auk þess algert tryllitæki. Urus er fyrsti sportjeppinn frá Lamborghini sem kemur á markað. Þetta er líka fyrsti bíllinn sem Lamborghini framleiðir sem er með forþjöppu. Það má segja að Lamborghini Urus sé hreinræktaður sportbíll í líki sportjeppa. Lambo er sannarlega ekkert lamb að leika sér við. Þetta er urrandi tryllitæki með gríðarlega aflmikla 4 lítra, V6 vél með tvöfaldri forþjöppu sem skilar alls 650 hestöflum. Hámarkstogið er 850 Nm. Sportjeppinn er aðeins 3,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og 12,4 sekúndur í tvö hundruð. Hámarkshraðinn er 305 km/klst og geri aðrir sportjeppar betur. Krafmeiri bíll hefur líklega sjaldan eða aldrei verið á ekið Suðurlandi. Líklega ekki dýrari heldur en Urus kostar um 40 milljónir króna.

Porsche Panamera E-Hybrid Sport Turismo í langbaksútfærslu kom fram á sjónarsviðið á árinu. Bíllinn er stór og rúmgóður, rúmlega 5 metra langur og tæplega tveggja metra breiðurPlug-in Hybrid bíll eða svokallaður tengiltvinnbíll. Hann er gríðarlega aflmikill með 2,9 lítra, V6 bensínvél og rafmótor. Samanlagt aflið skilar 462 hestöflum og hámarkstogið er 700 Nm. Þetta er ekkert smáræði og skilar sér sannarlega í miklu afli fyrir þennan stóra bíl. Hann er aðeins 4,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið og 10,8 sekúndur úr kyrrstöðu í 160 km hraða. Hámarkshraðinn er 275 km/klst.

Maserati frumsýndi nýjan ofursportjeppa á bílasýningunni í New York sem ber heitið Levante Trofeo. Ítalski bílaframleiðandinn er þekktur fyrir að framleiða volduga bíla og hér er engin undantekning á ferðinni. Þessi nýi sportjeppi mætir öflugur til leiks. Undir óvenju stóru grillinu er feykilega öflug 3,8 lítra V8 vél sem Ferrari smíðaði í Maranello. Vélin skilar Levante Trofeo 582 hestöflum sem kemur bílnum úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,9 sekúndum. Þetta er þrusugott afl fyrir sportjeppa. Maserati Levante Trofeo er með fjórjóladrifi og vel búinn lúxusbúnaði eins og búast má við frá Ítölunum. Hámarkshraði bílsins er um 300 km/klst.

Breski lúxusbílaframleiðandinn Rolls Royce slær ekki slöku við og kynnti nú í árslok nýjan lúxusjeppa sem ber heitið Cullinan. Hann er nefndur í höfuðið á stærsta demanti sem fundist hefur. Þeir eru ekki með neina minnimáttarkennd hjá Rolls Royce. Jeppinn verður hlaðinn lúxus og mun kosta frá 30 milljónum króna. Hann er búinn sömu 6,7 lítra vélinni og er í annarri lúxuskerru, Rolls Royce Phantom. Breski bílaframleiðandinn segir að nýi jeppinn sé klár í torfærur en það verður forvitnilegt að vita hverjir eru tilbúnir að keyra svona dýrum lúxusjeppa á malarslóðum.

Annar breskur lúxusbílaframleiðandi kynnti sinn fyrsta Plug-in Hybrid bíl á árinu í formi lúxusjeppans Bentley Bantayga. Þetta verður sem sagt umhverfismildari útfærsla af Bantayga sem er með tengiltvinnvél sem samanstendur af rafmótor og 3 lítra bensínvél með forþjöppu. Hún skilar bílnum 450 hestöflum. Bíllinn á að komast 45 km á rafmagninu einu saman samkvæmt upplýsingum frá Bentley. CO2 losunin fer niður í aðeins 75g/km. Bentley hyggst framleiða fleiri Plug-in Hybrid bíla á næstu árum og framundan er sportbíll með tengiltvinnvél sem gæti litið dagsins ljós árið 2020.

Land Rover svipti hulunni af nýjum og flottum tveggja dyra Range Rover SV Coupe á bílasýningunni í Genf. Þessi nýi jeppi frá breska lúxusbílaframleiðandanum verður einungis framleiddur í takmörkuðu upplagi. Range Rover SV Coupe er tilþrifamikil viðbót við aðrar gerðir Range Rover, en nýi bíllinn er jafnframt sá eini á markaðnum í sínum stærðarflokki sem er tveggja dyra coupe. Hann er sérlega vel búinn að hætti Range Rover þar sem fallegt handbragðið blasir hvarvetna við, ekki síst í farþegarýminu. Jeppinn er mjög aflmikill með 5 lítra V8 vél undir húddinu sem skilar 558 hestöflum. Hámarkstogið er alls 700 Nm. Range Rover SV Coupe fer úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 5 sekúndum sem er asni gott fyrir jeppa.

Jaguar I-Pace var kynntur nú í haust og hefur verið duglegur við að sanka að sér fullt af verðlaunum. I-Pace er sportjeppi sem fylgir í fótspor F-Pace og E-Pace en munurinn er fyrst og fremst að þessi er hreinn rafbíll. Þetta er 400 hestafla lúxuskerra sem skilar 700 Nm í togi og er aðeins 4,4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundrað.

Volkswagen kom fram með nýja kynslóð af Touareg sem er flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans. Nýi jeppinn er mikið breyttur frá forveranum. Hönnunin er vel heppnuð í alla staði. Touareg er nú betur búinn lúxus og nýjustu tækni en áður með nýju upplýsinga- og afþreyingakerfi og stórum 38 tommu snertiskjá í innanrýminu. Touareg er með 3 lítra, V6 dísilvélum. Í minni útfærslunni skilar vélin 230 hestöflum og togið er 500 Nm en sú stærri skilar 285 hestöflum og togið er 600 Nm. 

Stikkorð: bílar  • Áramót