*

Hitt og þetta 28. apríl 2006

Lykilmenn yfirgefa Skýrr


Nokkur upplausn hefur ríkt hjá hugbúnaðarfyrirtækinu Skýrr síðan Hreinn Jakobsson, forstjóri félagsins, gekk á dyr í kjölfar kaupa Dagsbrúnar á Kögunar-samsteypunni. Í kjölfar þess hafa nokkrir lykilstarfsmenn félagsins horfið á braut og virðist stjórnendum félagsins að Síminn sé að lokka þá til sín og hyggist hefja rekstur í samkeppni við Skýrr. Var haldinn starfsmannafundur af þessu tilefni hjá félaginu í gær þar sem reynt var að efla samkeppnisandann enda nokkuð fast sótt að félaginu um þessar mundir. Var það mál manna sem voru á fundinum að vel hefði tekist til enda hafa menn ekki svo miklar áhyggjur af samningum félagsins þar sem þeir eru flestir bundnir til langs tíma. Í samningi Hreins munu hafa verið tveggja ára samkeppnisákvæði þannig að ekki er talið líklegt að hann geti ráðið sig í vinnu hjá öðrum á þeim tíma nema hætta til starfslokasamningi sínum.

Dagsbrúnarmenn útskýra hvað verður um Kögun

Óhjákvæmilega hafa verið miklar vangaveltur í gangi innan tölvugeirans um hvaða áherslur Dagsbrún muni hafa á starfsemi Kögunar nú þegar félagið er orðið hluti af samstæðu fjölmiðla- og fjarskiptarisans. Talsmenn félagsins neita því í einkasamtölum að nokkur hætta sé á því að félagið liðist í sundur og ef nýir meirihlutaeigendur fá sitt fram þá hafi þeir hugmyndir sem munu styrkja Kögun verulega í umfangi rekstrar, þ.e.a.s. hugbúnaðar- og rekstrarhlutans. Á hluthafafundi Dagsbrúnar í dag verður án efa gefin einhver innsýn í það hvað menn hyggjast gera í framhaldinu. Það sem menn velta hvað mest fyrir sér er hvað verður um útrás fyrirtækisins. Eftir því sem komist verður næst þá er gagnkvæmur skilningur milli eldri og og nýrri meirihlutaeigenda þess efnis að nýir eigendur fái að taka sér frest til að skoða þau mál, þ.e.a.s. hvort þeir vilji halda uppbyggingu erlendis áfram með sama hætti og fyrri stjórnendur voru að gera. Varðandi samstæðuna hér heima þá hefur lengi legið fyrir að rekstur Opinna kerfa kynni að verða seldur burtu frá samstæðunni og á tímabili var rætt um að skrá Opin kerfi sérstaklega. Ljóst er að rekstur vélbúnaðarhlutans hefur ekki verið með þeim hætti að hann gefi færi á slíkum gerningi.

Björgólfur Thor varð að beygja sig

Niðurstaða sú sem fékkst á stjórnarfundi Straums-Burðaráss Fjárfestingabanka síðastliðinn miðvikudag hlýtur að verða að teljast áfall fyrir ríkasta mann landsins, Björgólf Thor Björgólfsson. Hljóta menn nú að spyrja sig hver hafi verið tilgangurinn með því að efna til ófriðar í stjórninni og gefa það svo eftir á næsta fundi? Ljóst er að Björgólfur hefur vanmetið viðbrögð Magnúsar Kristinssonar sem var kominn með meirihluta stjórnarmanna á bak við sig þegar miðvikudagsfundurinn hófst. Björgólfur hafði áttað sig á því að ef til kosningar kæmi á fundinum yrði hann í minnihluta þar sem Kristinn Björnsson og Páll Þór Magnússon stóðu með Magnúsi. Því lagði hann sjálfur fram tillögu um breytingu á stjórn en ákvað ekki að ganga úr henni eins og vangaveltur höfðu verið um. En nú spyrja menn á markaði sig að því af hverju var ráðist í þessar aðgerðir úr því að meirihlutastaðan var ekki tryggari? Því hefur verið haldið fram að Björgólfur Thor mæti á mjög fáa stjórnarfundi og því verði hann að treysta á staðgengil sinn og hann hafi ekki talið Magnús rétta manninn í það enda eigi þeir ekki beinlínis skap saman. Einnig hefur því verið haldið fram að Björgólfur Thor hyggist tvinna nánar saman rekstur Straums og annarra fjárfestingafélaga sinna og því viljað hafa frjálsara spil með það sem væri að gerast. - Að öðru leyti verður þetta mál ekki rætt frekar í fjölmiðlum!