*

Tölvur & tækni 10. september 2013

Lykilorðin heyra sögunni til í iPhone 5S

Apple kynnti tvo nýja síma til sögunnar í dag. Annar þeirra er mjög ódýr.

Lykilorð eru úr sögunni fyrir þá sem eignast nýjasta iPhone-símann þegar hann kemur á markað. Í stað lykilorða getur síminn skynjað fingraför notandans þegar hann vill kaupa eitt og annað í gegnum símann á netinu. Tim Cook, forstjóri Apple, kynnti nýja iPhone-síma fyrirtækisins sem væntanlegir eru á markað. Fyrir utan nýja tækni til innkaupa á netinu kom fátt á óvart.

Nýju símarnir eru tveir, iPhone 5S og iPhone 5C sem verður mun ódýrari eða á í kringum 100 dali. Sá fyrrnefndi er næsta skref frá iPhone 5 sem kom á markað í fyrra. Cook sagði daga svartra iPhone-síma taldir, þeir nýju komi nefnilega í nokkrum mismunandi litum. Hann keyrir á A7-örgjörvanum sem er tvöfalt hraðvirkari en örgjörvinn í núverandi símum. NBC-fréttastofan segir til samanburðar að örgjörvinn sé 40-sinnum hraðvirkari en sá sem var í fyrsta iPhone-símanum sem kom á markað árið 2007. Rafhlaðan er sambærileg og í iPhone 5. Báðir símarnir nota stýrikerfið iOS7.

Þá verður 8 MP myndavél. Búið er að bæta myndavélina nokkuð. Sjá mátti af beinni lýsingu frá kynningu á símanum að myndir úr iPhone 5S eru nokkuð betri en í forveranum. Í ofanálag verður hægt að taka upp 120 myndskeið á sekúndu sem þýðir að hægt er að taka upp hægar myndir. Sambærileg tækni er í Samsung Galaxy S4 og Lumia-símum Nokia.

Stikkorð: Tim Cook  • iPhone 5S  • iPhone 5C