*

Sport & peningar 26. maí 2016

Madrid og Manchester verðmætust

Knattspyrnufélögin Real Madrid og Manchester United á toppnum samkvæmt skýrslu KPMG.

Samkvæmt nýrri skýrslu KPMG um verðmæti evrópskra knattspyrnufélaga eru Real Madrid og Manchester United þau verðmætustu. Heildarverðmæti 32 stærstu knattspyrnufélaganna í Evrópu er samtals 26,3 milljarðar evra, en heildarvirði þeirra tveggja stærstu er um 2,9 milljarðar. Þegar þriðja félagið í röðinni, FC Barcelona, er bætt við eru þau samanlagt með um þriðjung af heildarvirði allra félaganna. Einungis 9 af félögunum eru metin yfir einum miljarði evra.

Fyrsta samantekt sinnar gerðar

Þetta er í fyrsta sinn sem KPMG tekur saman skýrslu um verðmæti evrópskra knattspyrnufélaga en þau miða hana við opinberar upplýsingar um félögin fyrir knattspyrnutímabilin 2013 til 2014 og 2014 til 2015.

Er það gert í tilefni af úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu laugardaginn komandi milli Real Madrid CF og Atlético de Madrid.

Samanburður milli landa

Útsendingarréttur á ensku úrvalsdeildinni sem metinn er á 2,4 milljarða evra fyrir hvert leiktímabil hefur mikil áhrif á virði ensku deildarinnar, en ensku félögin leiða listann ef hann er tekinn saman eftir þjóðum. Samanlagt virði þeirra er yfir 10 milljörðum evra sem nemur um 40% af samanlögðu virði allra félaganna. 

Heildarvirði spænsku liðanna er 6,6 milljarðar evra, en tvö stærstu þeirra frá Madrid og Barcelona halda uppi 85% af virði spænska hlutans, en Spánn er eina landið með fleiri en eitt knattspyrnufélag sem er metið yfir 2 milljarða evra.

Einungis þrjú þýsk knattspyrnufélag komast inn á listann yfir verðmætustu 32 félögin en samanlagt virði þeirra eru rúmir 3,5 milljarðar evra.

Þó langflest félaganna í könnunninni komi frá Ítalíu og Englandi, sjö frá hvoru, er heildarvirði þeirra frá Ítalíu 70% lægra en þeirra frá Englandi, eða um 3,1 milljarðar, meðan þau frá Englandi eru metin á 10,2 milljarða evra.

Franska liðið Paris Saint-Germain er í 10. sæti listans en það er metið á 843 milljónir evra.

Stikkorð: KPMG  • fótbolti  • knattspyrna