*

Menning & listir 19. febrúar 2013

Maður á miðjum aldri fer á Sónar

Fulltrúi Viðskiptablaðsins eyddi síðustu helgi á raftónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík. Hann reyndist yngri en sumir tónlistarmennirnir.

Jón Aðalsteinn Bergsvein
 - jon@vb.is

„En hvað það er gaman að sjá mann á þínum aldri hér,“ sagði kunningi minn glaður í bragði þegar við hittumst í stiganum upp á aðra hæðina í Hörpu á föstudagskvöldið þar sem ég gekk á milli tónleika á raftónlistarhátíðinni Sónar Reykjavík. Nokkur ár skilja okkur að þótt ekki megi skilja það sem svo að hann geti verið sonur minn. Þetta snerti vissulega taugarnar – en maður er orðinn vanur því. Svo því sé haldið til haga þá er ég á 42. aldursári.

Skemmtilegt var að sjá hversu breitt aldursbilið var á tónlistarhátíðinni. Gestir voru allt frá 18 ára aldri og vel yfir fimmtugt. Aldursmunurinn sást einna helst á barnum. Þar drukku þeir eldri bjór, rauðvín og annað í svipuðum dúr en þeir yngri voru nær aðallega í blöndu af snöpsum á borð við Jagermeister og orkudrykknum Redbull, sem finna mátti í hverjum ísskáp á staðnum.

Aldurinn var álíka dreifður í röðum tónlistarfólksins. Ungliðarnir í Retro Stefson og feimna krútttröllið hann Ásgeir Trausti vor í yngri deildinni öðru hvoru megin við leyfð aldursmörk gesta. Til samanburðar er japanski rafguðinn Ryuichi Sakamoto á hinum kantinum. Hann er fæddur árið 1952,  nýlega orðinn 61 árs og gæti því verið afi þeirra yngstu. Jakob Frímann Magnússon sem tróð upp í nafni Jack Magnet er árinu yngri og fagnar stórafmæli í maí. 

Harpa kom heldur betur á óvart sem staður undir tónlistarhátíð. Þarna gátu gestir gengið á milli fjögurra staða og hlustað á nýtt í bland við gamalt efni frá kvöldmatarleyti og fram á nótt. Viðskiptablaðið fór að sjálfsögðu á staðinn og dregur hér saman það sem helst bar fyrir augu og eyru.

Föstudagur

Föstudagurinn var flott upphitun.

Þýski dúettinn Modeselektor var í hressilegri kantinum þar sem skífan Monkeytown var í aðalhlutverki. Margir þekktu bandið og dilluðu sér með. Eftir nokkur lög var klifunin hins vegar orðin ögn þreytandi og á stundum fannst mér eins og þeir Gernot Bronsert and Sebastian Szary ættu svolítið erfitt með að lesa í áhorfendur. 

Bloodgroup hefur sjaldan verið þéttari. Hljómsveitin spilaði nokkur lög af nýju plötunni sem áhorfendur þekktu lítið til. En sviðsframkoman var stórskemmtileg. Altmuligmaðurinn Ragnar Jónsson var stórgóður og minnti á breska glamúrstjörnu á sjöunda áratug síðustu aldar. Flott stöff.

Danski plötusnúðurinn Kasper Björke var í lagi – en gerði lítið fyrir mig. Ég kíkti í kjallarann, bílageymsluna - hafði heyrt að henni yrði breytt í næturklúbb fyrir plötusnúða.

Það sem mér fannst Daninn ekki gera fyrir mig bætti GusGus upp og vel það. Mér hefur reyndar stundum þótt erfitt að henda reiður á það hve margir eru í GusGus að þeim Birgi og Stephan undanskildum. Daníel Ágúst og Högni Egilsson voru fantaflott þriðja krydd sem gerði tónleikana frábæra. Nýtt lag var skemmtilegt í sarp margra af súperkatalog Gus gus.

Næturklúbburinn var hins vegar ekki upp á marga fiska; nokkur bílastæði höfðu verið stúkuð af með dúk, þarna var kalt og það gustaði frá sjónum. Hljómurinn var eftir því og hvarf inn í steinsteypuna. Af þeim sökum nennti ég ekki að bíða til klukkan tvö eftir breska ungstirninu James Blake þeyta skífum. Þegar ég yfirgaf svæðið fannst mér eins og ég hafi stungið Norðurlandabúann inni í mér í bakið.

Laugardagur

Ólafur Arnalds var alltof snemma á dagskrá á laugardeginum eða í kringum klukkan hálf sjö. Ég rétt náði í aftari hlutann og sá þá mér til mikillar gleði að áhorfendur gátu setið á stólum. Það var nokkuð sem hefði komið sér vel enda fæturnir orðnir lúnir eftir föstudagskvöldið. Ólafur var mættur við þriðja mann auk Arnórs Dan, söngvara hljómsveitarinnar Agent Fresco, sem tók lagið. Nýja efnið er nokkuð ólíkt fyrra efni, svo sem Eulogy for Evolution og Variations of Static. Nýja efnið heitir víst þróun. Menn á mínum aldri vilja stundum festast í gömlum förum og það gæti hafa gerst í þessu tilviki.

Þeir Alva Noto og Ryuichi Sakamoto voru gríðarlega heitt númer þótt ekki hafði ég heyrt minnst á helming dúetsins. Tónleikarnir voru ofur nákvæmir, hófust á tilsettum tíma og þess krafist að tónleikagestir bæði slökktu á farsímum sínum og yfirgæfu ekki salinn fyrstu þrjú lögin. Reyndar hefur Sakamoto verið svolítið kameljón í gegnum tíðina og tekið breytingum. Ég vissi samt ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar Alva Noto tók að töfra fram ofurhæga mínímalíska skruðninga og ískur í takt við þrjá samhljóma á mínútu frá Sakamoto. En tónlistin hafði vinninginn. Eftir því sem á leið síuðust verkin inn. Það var í raun ekki fyrr en daginn eftir sem mig langaði að hlusta á meira. 

Það er soldið síðan ég heillaðist af tónlist James Blake. Þetta er undurfögur tónlist á að hlýða en ekki allra. Nokkrir sem ég hitti á tónlistarhátíðinni höfðu enga þolinmæði fyrir henni, þessum síendurteknu línum og stefjum. Blake, sem var við þriðja mann á sviðinu, fyllti salinn og áhorfendur virtust fullkomlega á nótunum. Það var helst þegar hann kynnti nýtt efni til sögunnar að maður týndi áttum. Blake virðist sannur herramaður og afsakaði að hafa notað áhorfendur sem tilraunadýr.

Ég hafði aldrei séð Ásgeir Trausta á sviði. En nú mæli ég með því. Frumburðurinn hans sem kom út fyrir síðustu jól er frábær en á tónleikum er hann yndi á að hlýða. Ekki spillir bandið fyrir.

Nýjasta bandið sem ég sá var Úlfur með Úlf Hansson fremstan í flokki. Ég hef séð Úlf með öðrum böndum, Swords of Chaos hita upp fyrir Ham. Gott ef hann var ekki með Jónsa í Sigur Rós að túra um heiminn. Ég náði engu sambandi við tónlist Úlfs. Hún einkenndist af hávaða og suði með stöku melódíum, einkennileg samsuða af Sigur Rós og einhverju sem ég kann engin skil á. Kannski er ég ekki nógu þroskaður og botnaði hvorki upp né niðru. Mér sýndust reyndar blásararnir hans á svipuðu máli og ég. 

Squarepusher var ein af tveimur ástæðum þess að mig langaði á raftónlistarhátíðina Sónar Reykjavík. Þetta var náttúrlega guð í mótun í kringum 1995-96 með Aphex Twin og öðrum furðufýrum á mála hjá Warp-útgáfunni sem dældu út svo fallegu stöffi ásamt því að berja endrum og eins harkalega á tónstiganum að stundum varð undan að láta. Ég átti eitthvað af stöffinu á kassettum sem ég tók upp hjá vini mínum á sínum tíma. Þegar atgangurinn var sem harðastur fóru spólurnar út í horn. Þegar kassettutækið hafði safnað nógu miklu ryki og geisladiskurinn búinn að yfirtaka allt enduðu þær á haugunum ásamt fleira dóti. Squarepusher sýndi á Sónar Reykjavík að hann, þrátt fyrir að næstum tuttugu ár eru síðan hin frábæra Big Loada leit dagsins ljós, er enn í miklu stuði. Nýja platan Ufabulum skipaði stóran sess á tónleikunum og er Unreal Square enn pikkfast í hljóðhimnunum. Dúndurstöff.

Mugison var síðastur á minni dagskrá. Hann er eiginlega orðinn eins og traustur vinur, kemur alltaf á óvart og bregst aldrei. Maður getur orðið gengið að því nokkurn vegin vísu að tónleikar hans verði góðir. Í Hörpu var hann vopnaður nýjustu græjunni, Mirstumentinu. Hann sveik hins vegar örlítið lit í lokin með gítarkombói frá Helvíti, ljósasjói og hávaða sem getur ekki klikkað. 

Hér að neðan má sjá nokkur myndbrot af tónleikunum sem gestir tóku - þar á meðal undirritaður.

Squarepusher hefur verið í miklu stuði í næstum því tuttugu ár. Eins og hér sést var hann eldhress í Hörpunni.

Settið og ljósasjóvið var með minnsta móti á tónleikum þeirra Sakamoto og Alva Noto í Hörpunni.

James Blake var í peysu á tónleikunum.

Stikkorð: Mugison  • James Blake  • Sónar Reykjavík  • GusGus  • Squarepusher