*

Bílar 3. apríl 2017

Magnað meistaraverk

„Mercedes-AMG GT er án efa einn glæsilegasti sportbíll sem fluttur hefur verið hingað til lands.“

Róbert Róbertsson

Mercedes-AMG GT er án efa einn glæsilegasti sportbíll sem fluttur hefur verið hingað til lands. Bíllinn var aðalstjarnan á Mercedes-Benz AMG sýningu sem haldin var í Skútuvogi um helgina. Ég fékk að reynsluaka þessum magnaða sportbíl í höfuðborginni og tilfinningin var engu lík.

Eins og James Bond á götunum

Það er svolítill James Bond fílingur þegar sest er undir stýri á þessum svakalega bíl. Það vantar kannski bara eldflaugarnar og byssurnar. Kannski eru þær þarna en ég finn bara ekki takkann. Því nóg er af tökkum í glæsilegu innanrýminu. En þetta er bíll sem myndi klárlega sæma 007, njósnara hennar há- tignar, vel. Kannski Bond verði látinn skipta út Aston Martin fyrir þennan í næstu mynd. Hver veit?

Við sitjum tveir í bílnum enda bara sæti fyrir tvo en það fer afar vel um okkur enda er plássið fáránlega mikið. Það er langt á milli okkar í framsætunum enda miðjustokkurinn breiður með marga takka sem stýra mörgum tæknivæddum möguleikum sem bíllinn hefur upp á að bjóða.

Undurfagurt vélarhljóð

Sætin eru ótrúlega þægileg. Ekta sportsæti með hnausþykku leðri. Svo er sett í gang og það er frábær tilfinning að aka af stað í þessu meistaraverki frá Stuttgart. Vélarhljóðið er undurfagurt og eitt og sér fær það hjartað til að slá hraðar. Undir vélarhúddinu kraumar fjögurra lítra V8 vél sem skilar feikilegu afli eða alls 476 hestöflum. Há- markstog bílsins er alls 630 Nm. Bíllinn þeytist úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 4 sekúndum. Hámarkshraði bílsins er skráður 304 km en það var ekki látið reyna á það á götum Reykjavíkur þótt vissulega hafi verið tekið allhraustlega á bílnum.

Þessi nýi Mercedes-AMG GT er kraftmeiri en forveri hans og nær 14 hestöflum meira og togið er 30 NM meira en eldri gerð. Eyðslan er frá 9,3 lítrum á hundraðið en er auðvitað miklu meiri þegar sturtað er úr honum eins og gert var einu sinni eða tvisvar í þessum reynsluakstri. Þá var hægt að sjá bens- ínmælinn nánast hreyfast. Mengunin er frá 214 g/km.

Kostar 32,5 milljónir

Ég hef aldrei ekið bíl sem fengið hefur jafn mikla athygli á götum borgarinnar. Margir vegfaraendur sneru sér næstum úr hálsliðnum þegar þeir sáu bílinn. Og það er ekkert skrítið. Bíllinn er fallega hannaður með langt húddið sem gerir hann mjög sportlegan. Línurnar eru mjög flottar og 21 tommu felgurnar skemma ekki fyrir útlitinu.

Þessi bíll er magnaður sportbíll og ótrúlega skemmtilegur í akstri. Hann má líka alveg vera það enda kostar hann litlar 32,5 milljónir króna. Samkvæmt upplýsingum frá Bílaumboðinu Öskju, umboðsaðila Mercedes-Benz, er hann enn óseldur þótt hann hafi fengið gríðarlega athygli á bílasýningunni um síðustu helgi.

Stikkorð: Mercedes  • AMG  • bílarýni  • meistaraverk