*

Veiði 12. september 2015

Magnað sumar í Miðfjarðará

Leigutaki Miðfjarðarár segir sumarið búið að vera ótrúlega gott og veiðitölurnar segi í raun alla söguna en um 5.500 laxar hafa veiðst í ánni.

Trausti Hafliðason

Alls var 1.694 löxum var landað í Miðfjarðará í fyrra en í sumar hafa þegar veiðst um 5.500 laxar. Fróðlegt er að skoða veiði á stöng en fyrir veiðimenn segir sú tala meira en heildartalan. Í fyrra veiddust tæplega 175 laxar á hverja en í dag hefur áin þegar gefið yfir 600 laxa á stöng. Viðsnúningurinn milli ára er því ótrúlegur. Þess má geta að gamla metið var sett árið 2010 en þá veiddust 4.043 laxar í ánni.

Rafn Valur Alfreðsson, sem er leigutaki Miðfjarðarár og tók við ánni af Lax-á árið 2009, segir að síðustu sex ár hafi áin nánast verið að fullu seld og stærsti hlutinn af kúnnahópnum séu útlendingar.

Fallegur smálax

„Sumarið er náttúrlega búið að vera ótrúlega gott og veiðitölurnar segja í rauninni alla söguna," segir Rafn Valur. „Veiðin núna byrjaði mjög svipað og árið 2009, sem var fyrsta árið mitt með ána. Veiðin fór rólega af stað en svo bara allt í einu byrjaði að hellast inn smálax. Þannig var það til dæmis ekki í fyrra því þá veiddist óvenju lítið af smálaxi eins og reyndar víðast hvar um landið. Hlutfall stórlaxa í fyrra var í kringum 45% og til að setja það í samhengi þá reiknum við með því að stórlaxahlutfallið í ár verði í kringum 10%. Um 90% af veiðinni núna er því mjög vel haldinn og fallegur smálax, svona  62 til 70 sentímetrar. Í fyrra var smálaxinn hérna rýr eins og víðar."

„Gríðarlegt seiðamagn hefur verið í ánni síðustu árin. Þrátt fyrir að menn megi taka lax þá eru mjög fáir sem gera það enda stærsti hluti okkar viðskiptavina erlendir veiðimenn. Ég myndi giska á að 95% laxinum sem veiðist í ánni sé sleppt aftur sem er mikil breyting frá því sem áður var. Mig minnir að árið 2006 hafi þetta hlutfall verið 22%."

Að sögn Rafns Vals er erfitt að útskýra hvers vegna veiðin sé svona góð í ár. Líklegasta skýringin sé sú að margir samverkandi þættir hafi fallið saman eins og púsluspil.

„Vorið í fyrra var gott og þá fór stór hluti af seiðunum út í sjó þar sem skilyrði voru greinilega mjög góð. Þess vegna verða heimturnar núna svona svakalegar. það er ótrúleg heppni þegar það smellur allt svona saman í náttúrunni. Það er eiginlega skrítið að segja það en miðað við magnið af fiski í ánni í júlí þá fannst mér að veiðin hefði alveg getað verið meiri. Laxinn gekk hægt upp ána til að byrja með en síðan um leið og það byrjaði að rigna þá fór hann af stað og þess vegna er veiðin enn frábær."

Öll viðmið brenglast

„Persónulega finnst mér veiðin í sumar nánast vera of mikil. Ég segi þetta vegna þess að þegar veiðin er svona mikil þá brenglast öll viðmið hjá mönnum. Að búast við að fá fleiri en 4 til 5 laxa á stöng á dag er óeðlilegt. Hingað komu veiðimenn í fyrra sem spurðu hvað væri eiginlega að klikka, af hverju veiðin væri ekki meiri. Þegar maður fékk þessar spurningu þá þurfti maður að benda mönnum á að 25 ára meðaltal fyrir árið 2009 hafi verið 1.240 laxar. Í fyrra veiddust tæplega 1.700. Árið 2008 endaði áin í 1.800 löxum og mönnum fannst það geggjað, frábær veiði. Menn eru því ansi fljótir að gleyma."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.