*

Bílar 30. apríl 2013

Magnaðasti Camaro sögunnar kynntur

Hljóðið í Chevrolet Camaro Z/28 árgerð 2014 er hreinlega magnað.

Róbert Róbertsson

Chevrolet Camaro Z/28 árgerð 2014 olli talsverðu uppnámi á bílasýningunni í New York á dögunum þar sem bíllinn var frumsýndur. Camaro kom upphaflega á markaðinn 1967 og var sérstaklega hannaður til hraðaksturs á vegum. Hann var léttbyggður og lipur og einstaklega aflmikill bíll. Nýr Camaro býr yfir öllum sömu eiginleikunum og hvert smáatriði er hannað til að skapa honum sess sem magnaðasta Camaro sögunnar.

LS7 vélin er aflmesta, fjöldaframleidda V8 vél án forþjöppu sem nokkru sinni hefur verið smíðuð. Vélin er einstaklega sterkbyggð og með léttum en sterkum íhlutum eins og ventlum úr títaníum og sveifarás úr hertu stáli. Slagrými vélarinnar er 7 lítrar og hún skilar 500 hestöflum. Camaro kemur eingöngu með TREMEC TR6060 6 gíra beinskiptingu sem er séraðlöguð að öllu vélaraflinu. Með þessu er líka verið að hverfa aftur til þess tíma þegar Z/28 kom fyrst á markað á sjöunda áratugnum og var tromp Chevrolet í hinum goðsagnakenndu Trans-Am kappaksturskeppnum á sjöunda áratugnum.

Í útlitshönnun Camaro Z/28 2014 er einnig vísað til upprunalega bílsins um leið og stuðst er við nútíma hönnunarnálgun og tækni. Straumlínuhönnun bílsins er með þeim hætti að bíllinn býr yfir miklum niðurkrafti sem gerir hann stöðugri í akstri á miklum hraða. Það þarf alvöru bremsur í bíl af þessu tagi og staðalbúnaður með koltrefja-keramik bremsudiskar frá Brembo, vinddreyfir að framan, vindhlíf undir botnplötunni sem eykur niðurkraftinn, útdregin bretti og vindskeiðar að aftan.

Yfir 200 breytingar hafa verið gerðar á undirvagni, þar á meðal stífari demparar, stífari gormar og stífari fóðringar. Bíllinn kemur á 19 tommu felgum og allt er gert til að létta hann sem mest. Z/28 kemur á markað síðar á þessu ári en Chevrolet hefur skráð hann til keppni í nokkrum viðburðum strax á þessu vori.

Hér má sjá myndband af bílnum. Hækka má vel í hátölurum - eða teygja sig í heyrnartólin - og hlusta á magnað vélarhljóðið í bílnum.