*

Bílar 5. janúar 2013

Magnaðir ofursportbílar frá Koenigsegg

Christian von Koenigsegg er sagður hafa ákveðið, eftir að hafa farið í bíó fimm ára gamall, að framleiða lúxusbíla.

Það er gaman að eiga drauma en enn skemmtilegra að láta þá rætast. Þýskættaði Svíinn Christian von Koenigsegg er sagður hafa ákveðið, eftir að hafa farið í bíó fimm ára gamall, að framleiða lúxusbíla þegar hann yrði fullorðinn. Farið var yfir Koenigsegg bílana í tímariti Viðskiptablaðsins, Áramót.

Það var í raun kvikmynd sem hafði þau áhrif á Koenigsegg að hann vildi framleiða lúxusbíla. Kvikmyndin var norska brúðumyndin Álfhóll: Kappaksturinn mikli, frá árinu 1975, sem heitir á frummálinu Flåklypa Grand Prix. Christian óx úr grasi í Stokkhólmi en lagði stund á hagfræði um tíma í Brussel eftir að hann lauk menntaskólanámi heima í Svíþjóð.

Ofursportbíllinn Koenigsegg Agera R er engum líkur. Þessi nýjasta afurð úr ofurbílasmiðju Christian von Koenigsegg er einn dýrasti bíll heims í dag og kostar um 200 milljónir króna. Agera R nær úr kyrrstöðu í 100 km hraða á einungis 2,8 sekúndum og hámarkshraðinn er 416 km/klst. Þessi gríðarlega öflugi ofursportbíll getur náð 432 km hraða með sérstakri heimild frá framleiðanda sem breytir þá tölvustýringu í bílnum, en einungis í eitt skipti.

Stikkorð: Koenigsegg