*

Bílar 6. janúar 2019

Magnaðir sportbílar árið 2018

Marga dreymir um að eiga flotta og hraðskreiða sportbíla. Hér koma sjö kraftmiklar sportkerrur sem kynntar voru á árinu.

Róbert Róbertsson

Ítalski sportbílaframleiðandinn Ferrari kann að búa til flotta og hraðskreiða sportbíla. Ferrari kynnti nýjan sportbíl, 488 Pista Spider, sem er ógnarkraftmikill með 3,9 lítra V8 vél undir húddinu. Vélin skilar bílnum 720 hestöflum og togið er 568 Nm. Sportbíllinn fer í hundraðið á aðeins 2,85 sekúndum. Hámarkshraðinn er 340 km/klst. Þetta er sannarlega draumabíll að eignast en verðmiðinn stendur líklega í mörgum því hann kostar um 55 milljónir króna.

Nýr Porsche 911 Carrera var frumsýndur á Alþjóðlegu bílasýningunni í L.A Þetta er áttunda kynslóðin af þessum goðsagnakennda sportbíl. Hönnunin á þessum nýja 911 er nútímalegri þótt ættareinkennin séu ótvíræð. Útlitið er orðið enn kraftalegra en áður, og innréttingin skartar m.a. 10.9 tommu snertiskjá.

Skynvæddar stillingar og undirvagnsstýring ásamt nýskapandi akstursstillingum sameina þá frábæru aksturseiginlega sem hinn klassíski sportbíll er dáður fyrir. Sex sílendra forþjöppuvélin í 911 Carrera S og 911 Carrera 4S er enn háþróaðari og kraftmeiri en áður og framreiðir orðið 450 hestöfl sem er 30 hestöflum meira en fyrirrennarinn.

Afturdrifna útfræslan er 3,7 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið meðan sá fjórhjóladrifni er 3,6 sekúndur. Hámarkshraði Carrera S bílsins er orðinn 308 kílómetrar á klukkustund meðan Carrera 4 kemst í 306 kílómetra hraða að hámarki.

BMW kynnti til leiks i8 Roadster sportbíl með Hybrid vél. Bíllinn er byggður á Spyder hugmyndabílnum sem kynntur var árið 2012. Hinn nýi i8 Roadster er blæjubíll og fallega hannaður eins og búast má við frá bæverska lúxusbílaframleiðandanum. Sportbíllinn er með tvær vængjahurðir sem gerir enn meira fyrir lúkkið. Hægt er að setja þakið niður á aðeins 15 sekúndum og að sjálfsögðu upp á sama tíma og hægt er að framkvæma þessar aðgerðir á allt að 45 km hraða.

Nýr i8 Roadster er knúinn áfram af Hybrid vél sem samanstendur af rafmótor og þriggja sílindra bensínvél með forþjöppu. Samtals skilar Hybrid vélin 369 hestöflum. Sportbíllinn er aðeins 4,6 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. BMW i8 Roadster kostar um 15 milljónir króna og er eilítið dýrari en i8 Coupe.

Nýr Ford Mustang Bullit var frumdýndur á bílasýningunni í Detroit í byrjun ársins. Bíllinn er undir hughrifum frá hinum klassíska bíl sem leikarinn Steve McQueen gerði ódauðlegan í kvikmyndinni Bullit frá árinu 1968. Nýi Mustanginn fær einmitt nafnbótina þaðan. Hann lúkkar vel eins og Mustang gerir nú raunar alltaf með sitt kraftmikla og sportlega útlit.

Undir húddinu á hinum nýja Mustang kraumar 5 lítra V8 vél sem skilar bílnum miklu afli eða alls 475 hestöflum. Hámarkshraði bílsins er 260 km. Það er 13 km meira en Mustang GT nær. Það var vel við hæfi að Holly McQueen, barnabarn leikarans, kynnti bílinn til leiks á sviðinu í Detriot. Það fór líka vel á því að frumsýna þennan nýja Mustang í bandarísku bílaborginni.

Nýr Aston Martin Vanquish S kom fram á sjónarsviðið. Þetta er tveggja sæta sportbíll úr smiðju breska sportbílaframleiðandans lúkkar vel og er með öflugt vopnabúr undir húddinu. Sportbíllinn er með gríðarlega aflmikla og uppfærða 6 lítra, V12 vél. Hún skilar 588 hestöflum og hámarkshraðinn err úmlega 300 km/klst. Bíllinn þýtur úr kyrrstöðu í hundraðið á aðeins 3,5 sekúndum. Vanquish S er emð nýrri og hátæknivæddri 8 þrepa sjálfskiptingu Touchtronic III.

Mercedes-Benz kynnti nýjan GT Roadster, tveggja sæta sportbíl með blæju.  Hann er með 4 lítra V8 vél undir húddinu og smíðaur af AMG deild þýska lúxusbílaframleiðandans þannig að allt er í toppmálum hér. Hefðbundinn GT Roadster er 469 hestöfl og 4 sekúndur úr kyrrstöðu í hundraðið. Krafmeiri C útfræslan af sportbílnum er enn aflmeiri með 550 hestöfl undir húddinu og aðeins 3,7 sekúndur í hundrað.

Nýr Honda NSX sportbíll var kynntur til leiks í Plug-in Hybrid útfærslu. Tengiltvinnvélin samanstendur af þremur rafmótorum og 3,5 lítra V6 vél með tvöfaldri forþjöppu. Tengiltvinnvélin skilar 473 hestöflum og togið er 645 Nm. Honda hefur lagt mikla áherslu á að bæta aksturseiginleika bílsins sem er laglegur í hönnun og vel búinn nýjustu tækni. Honda hefur alltaf haft lag á að búa til sportlega bíla og japanski bílaframleiðandinn hefur lagt mikinn metnað í þessa nýjustu gerð NSX.

Nánar er rætt við Guðmund í Áramótum, sérriti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð, aðrir geta skráð sig með því að smella á Áskrift.

Stikkorð: BMW  • Ferrari  • Ford  • Honda  • Porsche  • Mercedes-Benz  • Aston Martin  • Sportbílar  • 2018