*

Bílar 26. nóvember 2012

Magnaður S-Class á næsta leiti

S-Class hefur ávallt verið flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans en þessi nýasta kynslóð bílsins verður engu lík.

Róbert Róbertsson

Nýjasta kynslóð Mercedes-Benz S-Class kemur á markað á næsta ári og er um að ræða gríðarlega tæknivæddan bíl. S-Class hefur ávallt verið flaggskip þýska lúxusbílaframleiðandans en þessi nýasta kynslóð bílsins verður engu lík hvað varðar tæknilegan útbúnað og öryggi. Mikið af hinum magnaða búnaði S-Class gerir ráð fyrir að bíllinn stýri sér í mörgum tilvikum sjálfur.

Meðal fleiri nýjunga í bílnum er endurbætt gerð hraðastillisins Distronic Plus. Núna tengist hann Steering Assist búnaðinum sem heldur bílnum með sjálfvirkum hætti á miðri akreininni, að því gefnu akreinamerkingar séu skýrar. Bíllinn getur líka hraðað sér sjálfkrafa og hægt á sér á 30 til 200 km hraða á klst, í samræmi við þann hraða sem valinn hefur verið á hraðastillarann. Bíllinn sér um að leggja sér sjálfur í stæði þ.e. tækniútbúnaður stýrir bílnum inn í stæðið, gefur inn eldsneyti og beitir hemlum. Bíllinn getur meira að segja ekið sjálfvirkt út úr stæðinu.

Svokallaður Næturvari, Night Assist, hefur verið mikið endurbættur. Búnaðurinn greinir gangandi vegfarendur í myrki með innfrarauðum skynjurum í allt að 160 metra fjarlægð og dýr í allt að 100 metra fjarlægð. Einnig verður bíllinn með sérstökum Athyglisvara sem skynjar ef ökumaður þreytist og varar hann við. Í sætisbeltunum eru öryggispúðar, einnig í aftursætunum.

Stikkorð: Mercedes-Benz  • S-Class