*

Bílar 4. júlí 2013

Magnús Scheving: Of há gjöld á fornbíla

Magnús Scheving segir skatta- og gjaldastefnu stjórnvalda byggða á skilningsskorti á bílamenningu.

Opinber gjöld þýða að ekki er lengur hægt að flytja inn fornbíla og varla heldur nýja og nýlega vandaða bíla að mati Magnúsar Scheving, en í viðtali við FÍB blaðið ræðir hann áhuga sinn á gömlum og nýjum bílum.

„Verst er að ég er orðinn smá smeykur við það hvernig stjórnvöld hafa spilað úr bílamenninga Íslendinga. Með skatta- og gjaldastefnu sinni á bíla er að verða mikil vöntun á heilu árgöngunum og gerðunum í bílaflórunni. Við stefnum óðfluga í sömu átt og Danmörk þar sem varla sést fallegur bíll lengur vegna þess hvernig skattlagningu á bíla er háttað. Þar er þetta orðið einhvernveginn bragðlaust. Hálfgamlir bílar eru áberandi margir og þeir nýrri eru að stærstum hluta litlir og ódýrir bílar.“

Magnús segist halda að þarna liggi einhver skilningsskortur á menningu að baki. Það sé með bíla eins og bókmenntir og aðrar menningarlegar athafnir að þegar skilning og þekkingu skorti færist einhæfnin í aukana. „Bílamenning er vissulega menning og hluti af litrófinu og það sést fljótt þegar hún tekur að fölna,“ segir hann.

Hann segir að fornbílum sé svo lítið ekið og því sé með engu móti hægt að heimfæra aksturinn og eldsneytiseyðslu þeirra undir daglega nýtingu og mengun og leggja ofurgjöld á gömlu bílana undir merkjum mengunarvarna.

„Með þessu er ég auðvitað ekki að ráðast gegn mengunarvörnum eða gera lítið úr þeim, en fornbílar eru bara svo örlítill hluti umferðarinnar að hann skiptir ekki máli í því samhengi. Akstur fornbíla er menningarsögulegt fyrirbæri sem setur gleðisvip á mannlífið. hann vekur ætíð mikla athygli og fólk hefur mjög gaman af að fylgjast með honum.“